„Alvarlegt tjón fyrir samfélagið“

Ferjan Baldur við bryggju í Stykkishólmi.
Ferjan Baldur við bryggju í Stykkishólmi.

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar skorar á Sæferðir og Eimskip að leita leiða til að hraða viðgerð á ferjunni Baldri eða finna annað skip til að sigla um Breiðafjörð. Fram hefur komið að ferjan Baldur verður í viðgerð næstu vikurnar.

Þetta kemur fram í ályktun sem bæjarstjórn hefur samþykkt. Þar segir að bæjarstjóri hafi gert grein fyrir viðræðum við stjórnendur Sæferða vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp sé komin. Mikil óvissa sé uppi um hvenær sigling hefst að nýju.

Í ályktuninni kemur fram að siglingar Baldurs gegni mikilvægu og sívaxandi hlutverki í samgöngukerfinu, en ferjar siglir yfir Breiðafjörð. „Rekstur ferjuhafnarinnar er stór liður í rekstri Stykkishólmshafnar og ferðaþjónustan treystir á siglingar ferjunnar allan ársins hring svo ekki sé talað um þýðingu ferjusiglinganna fyrir einstaklinga, heimilin og atvinnulífið á sunnanverðum Vestfjörðum.“

Bæjarstjórnin skorar á stjórn Sæferða og stjórnendur Eimskipafélags Íslands, sem eiganda ferjunnar, að leita allra leiða til þess að hraða viðgerð, eða tryggja annað skip til siglinga eins fljótt og kostur er. „Stöðvun ferjusiglinganna er alvarlegt  tjón fyrir samfélagið við Breiðafjörð og á Vestfjörðum og  því nauðsynlegt að bregðast hratt við og tryggja að ferja sigli að nýju svo komið verði í veg fyrir alvarleg skakkaföll og efnahagsleg áföll  hjá þeim sem njóta þjónustu ferjunnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert