Tekjur tónlistarfólks rannsakaðar

„Það eru til litlar tölur um það hvernig íslenska tónlistarhagkerfið virkar,“ segir Sigtryggur Baldursson framkvæmdastjóri Útón, um könnun sem skrifstofan stendur fyrir á efnahagslegu umhverfi tónlistarmanna og verður ýtt úr vör á næstu dögum. Upplýsingarnar geta skapað forsendur fyrir aukinni fjárfestingu innan tónlistargeirans.

Könnunin verður send til vel á fimmta þúsund tónlistarmanna um allt land. Jafnt til stórstjarna á borð við Björk, Sigur Rós, Of Monsters and Men og Kaleo en einnig til ungs tónlistarfólks í músíktilraunum. Sigtryggur segir það sérstaklega áhugavert að skoða hverjar útflutningatekjurnar eru en þær fara jafnan í gegnum erlend fyrirtæki sem hafi samið við íslenska tónlistarmenn. Upplýsingar um upphæðir í þeim efnum hafi því oft verið á huldu.

Góð þátttaka er lykilatriði og Sigtryggur biðlar til allra tónlistarmanna um að gefa sér tíma til að svara eftir bestu getu. „Það tekur bara 15 mínútur að svara þessu á netinu,“ segir hann. Könnunin er nafnlaus og þess er óskað að tónlistarmenn taki einnig fram tekjur sem mögulega hafi ekki verið taldar fram til skatts. 

Auk Útón eru það Samtónn (Samtök tónlistarrétthafa á Íslandi), atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og Rannsóknarmiðstöð skapandi greina og sem standa að rannsókninni en það er Erla Rún Guðmundsdóttir sem mun sjá um framkvæmdina.

Spurningarnar eru um tekjur og veltu af tónlistarstarfsemi allt frá tónleikahaldi, tónlistarhátíðum, höfundarrétti, kennslu og útvarpsspilun, til sölu tónlistar í erlenda sjónvarpsþætti og kvikmyndir. Rannsóknin mun einnig byggja á tölum frá stofnunum tengdum tónlist, svo sem STEF (Samtök tónskálda og eigenda flutningsréttar) og FHF (Félag hljómplötuframleiðanda).

Í myndskeiðinu er rætt við Sigtrygg um könnunina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert