Farið verði yfir málið og lært af því

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég tek þessum dómi auðvitað alvarlega. Það koma þarna fram atriði sem komu fram í nefndaráliti minnihlutans í vor sem ég stóð að ásamt fleirum. Þannig að ég tel að við eigum að taka þessari niðurstöðu alvarlega, við eigum að læra af henni og fara yfir og gaumgæfa laga og regluverkið í kringum málsmeðferðarreglurnar svo að svona mál endurtaki sig ekki.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is innt eftir viðbrögðum við dómi Hæstaréttar varðandi það hvernig staðið var að skipan dómara í Landsrétt og vísar til álits minnihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð dómsmálaráðuneytisins hafi ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög og voru tveimur umsækjendum sem ekki fengu skipun dæmdar miskabætur vegna þess en hins vegar var skaðabótakröfum þeirra vegna málsins hafnað.

Frétt mbl.is: Bjarni telur málið vera fullskoðað

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefur lýst því yfir að brugðist verði við dómi Hæstaréttar með því að setja reglur innan dómsmálaráðuneytisins sem taki á því þegar ráðherra ákveður að leggja fyrir Alþingi aðrar tillögur um skipun dómara en þær sem hæfisnefnd leggur til. Það væri gert til þess að koma til móts við kröfu Hæstaréttar um ríkari skyldur á herðar ráðherra að rannsaka slík mál með sjálfstæðum hætti.

„Mér finnst eðlilegt að þetta sé gert og sömuleiðis eðlilegt að Alþingi taki líka lagaákvæðin til skoðunar þannig að þessar reglur séu skýrar,“ segir Katrín. Spurð um stöðu dómsmálaráðherra vegna málsins segir forsætisráðherra: „Ég gerði ekki kröfu um afsögn ráðherrans síðasta vor vegna málsins og geri það heldur ekki nú.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert