Aðkoma eigin viðskipta með minnsta móti

Gunnar Egill Egilsson og Almar Þór Möller, verjendur Péturs og …
Gunnar Egill Egilsson og Almar Þór Möller, verjendur Péturs og Jónasar. mbl.is/Hari

Verjendur þeirra þriggja fyrrum starfsmanna deildar eigin viðskipta Glitnis, sem ákærðir eru fyrir að hafa framkvæmt markaðsmisnotkun með kaupum á hlutabréfum í bankanum sjálfum, héldu málflutningsræður sínar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Allir kröfðust þeir þess að umbjóðendur sínir yrðu sýknaðir af öllum sakargiftum og lögðu áherslu á takmarkaða aðkomu þeirra að fyrirkomulagi viðskiptanna, en starfsmennirnir þrír eru Jónas Guðmundsson, Valgarð Már Valgarðsson og Pétur Jónasson.

Saksóknari krefst skilorðsbundinna fangelsidóma yfir þeim öllum, 12-18 mánaða yfir Jónasi, 9-12 mánaða yfir Valgarði Má og 6-9 mánaða yfir Pétri.

Gunnar Egill Egilsson, verjandi Péturs, sagði frá því að þegar saksóknari hringdi fyrst í Pétur vegna rannsóknar málsins árið 2011 og boðað hann í yfirheyrslur, hafi Pétur skellt á, þar sem hann taldi að um símahrekk væri að ræða.

Það hafi ekki vakið mikla kátínu saksóknara.

Verjandinn sagði jafnframt að aðkoma Péturs að þeim viðskiptum sem kært er fyrir hafi verið mjög lítil,  en ákærutímabilið nær frá 1. júní 2007-26. september 2008. Pétur hafi hins vegar lokið störfum í deild eigin viðskipta þann 18. september 2007 og því alls starfað í deildinni í 77 viðskiptadaga á tímabilinu og einungis átt óveruleg viðskipti með eigin bréf bankans.

Hann sagði að ranglega væri hermt í ákærunni að Pétur hafi starfað í deild eigin viðskipta fram yfir áramót.

Gunnar Egill sagði að er hann hafi tekið málsvörnina að sér hafi hann átt í mestu vandræðum með að átta sig á því „af hverju Pétur hafi sætt rannsókn og hvað þá saksókn.“

„Ég er enn eitt spurningamerki með aðkomu Péturs að þessu máli,“ bætti hann við.

Hljóp í skarðið fyrir Jónas

Gizur Bergsteinsson, verjandi Valgarðs Más, sagði umbjóðanda sinn hafa hlaupið í skarðið vegna fámennis í deild eigin viðskipta og því framkvæmt kauptilboð í eigin bréf Glitnis á ákærutímabilinu. Hans aðalstarf hafi þó verið að sýsla með erlend hlutabréf fyrir bankann og flesta vinnudaga hafi hann verið upptekinn við það.

Því sé rangt af ákæruvaldinu að halda því fram að hann hafi verið með yfirsýn yfir málin, eins og lesa megi af ákæru málsins, þar sem ákærðu eru sakaðir um þaulskipulagða markaðsmisnotkun.

Gizur sagði að ef dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að viðskipti deildar eigin viðskipta Glitnis hafi verið andstæð lögum, væri samt sem áður rangt að sakfella Valgarð fyrir það, þar sem hann hafi mátt treysta á leiðsögn yfirmanns síns, Magnúsar Pálma Örnólfssonar, auk eftirlitsaðila innan bankans.

Ef það væri þannig að eftirlitsaðilar hefðu átt að gera einhverjar athugasemdir við viðskiptin, ætti ekki að láta starfsmenn eigin viðskipta gjalda þess.

„Það hefur ekkert komið fram við þessa aðalmeðferð sem hefur gefið það til kynna að þessi 27 ára gamli drengur hefði átt á átta sig á því að þarna væri pottur brotinn,“ sagði Gizur.

Ekki hægt að heyra tón símtalanna

Jónas Guðmundsson er sá sem framkvæmdi mikinn meirihluta viðskiptanna sem kært er fyrir. Verjandi hans, Almar Þór Möller, lagði mikla áherslu á að Jónas hefði ekki ákveðið fyrirkomulag viðskiptanna og að hann hefði ekki átt þátt í því að móta starf deildarinnar.

Sjálfur lýsti Jónas sér sem „starfsmanni á plani“ við skýrslutöku í upphafi aðalmeðferðar.

Almar Þór kvað skjólstæðing sinn hafa verið óbreyttan starfsmann og að með honum hefðu starfað fjölmargir sérfræðingar innan bankans, meðal annars lögfræðingar, sem höfðu það hlutverk að tryggja að starfsemi bankans væri í samræmi við lög.

Hann ræddi einnig um að það væri sá grundvallarmunur á þessu máli og sambærilegum málum Kaupþings og Landsbankans að Glitnir hefði verið með formlega viðskiptavakt í eigin bréfum, samkvæmt tilkynningu til Íslandsbanka til Kauphallar í byrjun júlí 1998.

„Aldrei hvarflaði að neinum að þetta hefði verið ólöglegt,“ sagði Almar.

Endurrit símtala hafa verið lögð fyrir dóminn í textaformi og gagnrýndi Almar hvernig ákæruvaldið hefði staðið að því. Í Kaupþingsmálinu hefðu símtölin verið spiluð fyrir dómi, svo hægt væri að meta tón símtalanna, „hvort menn væru að grínast eða slíkt.“ Það hafi ekki verið gert í þessu máli.

Þá sagði hann þau símtöl og tölvupósta sem liggi fyrir einungis handvalið brotabrot af öllum þeim samtölum sem ákærðu í málinu hefðu átt um hlutabréfaviðskipti sín á milli. Þau þurfi að setja í samhengi við öll hin samtölin, ef það eigi að byggja á þeim sakfellingu sakborninganna í málinu.

Aðalmeðferð málsins lýkur núna eftir hádegið, er Björn Þorvaldsson saksóknari leggur fram munnleg andsvör við málflutningi verjenda.

Aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmálinu lýkur í dag.
Aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmálinu lýkur í dag. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert