Engar skammtímalausnir í húsnæðismálum

Björn Leví segir að séu greiningar ÍLS og Þjóðskrár Íslands …
Björn Leví segir að séu greiningar ÍLS og Þjóðskrár Íslands skoðaðar saman sé þörf á 18.500 íbúðum fyrir lok árs 2019. mbl.is/Ómar

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segir mikilvægt að brugðist verði við þeim vanda sem við blasir á húsnæðismarkaði á Íslandi. Hann tekur þó fram að engar skammtímalausnir séu til í húsnæðismálum. Þörf sé á auknum fjárveitingum inn í almenna íbúðakerfið og efla verði húsnæðisáætlanir sveitarfélaga. 

„Það er mikilvægt að bregðast við. Ég vil þó segja að það er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að það eru engar skammtímalausnir í húsnæðismálum og við verðum alltaf að horfa til langs tíma,“ sagði Ásmundur.

Ráðherra segir enn fremur, að þegar ráðist sé í aðgerðir þá taki það ávallt tíma að koma þeim í framkvæmd. Því sé mikilvægt að halda vel á spöðunum og að rætt verði um húsnæðismál reglulega í þingsal. 

Þetta kom fram í sérstakri umræðu á Alþingi þar sem umfjöllunarefnið var skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

Alvarleg staða

Björn Leví Gunnarson, þingmaður Pírata, var málshefjandi og sagði að niðurstöður skýrslunnar ættu að valda öllum mjög miklum áhyggjum og væru sérstaklega alvarlegar miðað við önnur gögn sem verið væri að vinna út frá.

Hann benti á að fyrir tæpu ári hefði komið út greining frá Þjóðskrá Íslands. Þar kom m.a. fram að vöntun á íbúðum hafi verið vaxandi frá árinu 2009, og helst vanti íbúðir fyrir yngra fólk. Þar kom fram að vöntunin næmi 11.000 íbúðum til að ná sama íbúahlutfalli og fyrir hrun. Björn benti á að það væru íbúðir fyrir um það bil 25.000 manns. 

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að verkefnið sé risastórt.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að verkefnið sé risastórt. mbl.is/Eggert

Hann sagði enn fremur, að Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefði á svipuðum tíma talað um að aðeins vantaði um 1.700 íbúðir til að markaðurinn næði jafnvægi og 10.000 íbúðir fyrir árið 2022.

„Á milli þessara tveggja greininga er hróplegt ósamræmi og því tek ég nýrri skýrslu Íbúðalánsjóðs fagnandi.“

Vanti 18.500 íbúðir fyrir árslok 2019

Björn benti á, að í skýrslu ÍLS komi fram að það vanti 17.000 íbúðir fyrir lok árs 2019. „Það eru íbúðir fyrir næstum því 42.000 manns og væri annað stærsta bæjarfélag á Íslandi,“ sagði hann.

Séu skýrslur ÍLS, sem sýnir þróunina á næstu árum í óbreyttu íbúahlutfalli, og Þjóðskrár, sem sýni skort á fjölda íbúða til að ná fyrra íbúahlutfalli í íbúð, skoðaðar saman, sé skorturinn enn meiri en kemur fram í skýrslu ÍLS. Ef tekið sé tillit til greiningar Þjóðskrár vanti 18.500 íbúðir fyrir árslok 2019. 

„Verkefnið er risastórt,“ sagði Björn og bætti við að það væri nauðsynlegt að bregðast við. „Við erum á þeim stað núna að án nokkurra viðbóta þá verðum við í jafnvel verra, ef ekki sama ástandi, eftir tvö ár.“  

Vill ekki að sveiflur síðustu áratuga endurtaki sig

Ásmundur sagði að það væri mikilvægt að huga að stefnumótun í húsnæðismálum, sem byggi á rannsóknum og áætlunum til langs tíma. Húsnæðismál væru samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga og þar séu húsnæðisáætlanir og greiningar á húsnæðismarkaði lykilatriði. Áætlanirnar yrðu að taka mið af þessum greiningum. 

Skýrsla hagdeildar Íbúðalánsjóðs leiði í ljós að mikla þörf á uppbyggingu húsnæðis og uppsafnaðan skort miðað við ákveðnar forsendur.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir einsdæmi að byggingarmálin …
Ásmundur Einar Daðason, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir einsdæmi að byggingarmálin séu ekki á hendi sama ráðuneytis og húsnæðismálin. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er mikilvægt að fjölgun íbúða næstu árin sé bæði mikil og stöðug, enda viljum við ekki að sveiflur síðustu tveggja áratuga á húsnæðismarkaði endurtaki sig,“ sagði Ásmundur og bætti við að stjórnvöld muni halda áfram að styðja við uppbyggingu almenna íbúðakerfisins með stofnframlögum. Þar sé um að ræða hagkvæmar íbúðir fyrir þá hópa sem nú búa við minnst húsnæðisöryggi, þ.e. tekjulægri hópa á leigumarkaði. 

„Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga eru tæki til að tryggja að uppbygging sé stöðug og í takt við þarfir landsmanna. Það er mikilvægt að öll sveitarfélög landsins vinni húsnæðisáætlun, en það mun auka fyrirsjáanleika á húsnæðismarkaði og byggingamarkaði.“

Landsbyggðin setið eftir

Ásmundur bendir á að ÍLS muni, í samstarfi við ráðuneyti húsnæðismála, vinna tillögur að leiðum til að stuðla að aukinni uppbyggingu húsnæðis á landsbyggðinni. Ráðherra bendir á að landsbyggðin hafi setið algjörlega eftir í húsnæðismálum og víða sé markaðsbrestur þegar komi að nýbyggingum og fjármögnun íbúðarhúsnæðis. Hann vakti enn fremur athygli á því, að skipulags- og byggingarlöggjöf sé svið annars ráðuneytis en ráðuneytis húsnæðismála.

„Það er einsdæmi að byggingarmálin séu ekki á hendi sama ráðuneytis og húsnæðismál vegna þess að í öllum nágrannalöndum okkar er það svo að húsnæðismálin og byggingarlöggjöfin, eða reglugerðin og annað sem tilheyrir því, eru undir sama ráðuneytinu. Vegna þess hve mikilvægur og stór þessi málaflokkur er,“ sagði ráðherra.

Hann benti á að það þurfi að endurskoða byggingarreglugerðina reglulega. „Þetta er lifandi löggjöf og hana þarf að endurskoða.“

Allt of lítið rætt um húsnæðismál á Alþingi

„Það þarf auknar fjárveitingar inn í almenna íbúðakerfið en þó er það ekki hugsað þannig að það leysi húsnæðisskortinn. Það er fyrst og fremst hugsað til þess að tryggja þeim sem hafa lægri tekjur aðgengi að húsnæði. Við þurfum að efla húsnæðisáætlanir sveitarfélaga, efla greiningar Íbúðalánasjóðs, ná að láta þetta vinna saman og að sveitarfélögin fari síðan að auka sínar lóðaúthlutanir í samræmi við húsnæðisáætlanir sem gerðar eru á greiningum sem hægt er að treysta. Og í því sambandi stendur til að leggja fram frumvarp hér á Alþingi sem auðveldar Íbúðalánasjóði að afla sér gagna,“ sagði Ásmundur.

„Við þurfum að lækka byggingarkostnað og við þurfum líka að horfa á landið allt, eins og ég kom inn á hérna áðan, vegna þess að það verður að fara byggja líka utan höfuðborgarsvæðisins. Og staðan úti á landi er að mörgu leyti enn alvarlegri heldur en á höfuðborgarsvæðinu, þó að hún sé mjög alvarleg á höfuðborgarsvæðinu líka,“ sagði ráðherra sem fagnaði umræðunni og benti á að allt of lítið væri rætt um húsnæðismál á Alþingi miðað við hvað þetta væri mikilvægt mál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert