„Alltaf tilbúinn í hvað sem er“

Í starfi slökkviliðsmannsins má búast við ýmsu. Nafnarnir Hlynur Kristjánsson …
Í starfi slökkviliðsmannsins má búast við ýmsu. Nafnarnir Hlynur Kristjánsson og Hlynur Steinn Þorvaldsson á slökkvistöðinni í gærdag. mbl.is/Halldor Sveinbjörnsson

„Svona verkefni hefur ekki komið upp hjá okkur í slökkviliðinu á Ísafirði svo ég viti til og alla vega ekki síðan ég byrjaði í þessu, en maður er svo sem alltaf tilbúinn í hvað sem er,“ segir Hlynur Kristjánsson, varðstjóri á Ísafirði. Hann var annar tveggja slökkviliðsmanna frá Ísafirði, sem tóku þátt í leit að manni í Blágnípujökli í Hofsjökli á miðvikudagskvöld.

Fjölmennt lið björgunarfólks var kallað út til leitar og aðstoðar og segir Hlynur að samstarf allra aðila og stjórnun verkefnisins hafi verið til fyrirmyndar. Allt starfið hafi verið unnið af fagmennsku.

Tilviljanir réðu

Hlynur segir að tilviljanir hafi ráðið því að hann og nafni hans, Hlynur Steinn Þorvaldsson, sem er í varaliði slökkviliðs Ísafjarðarbæjar en jafnframt í lögreglunni, hafi farið í þetta verkefni, en þeir eru þjálfaðir og reyndir reykkafarar. Þyrla Landhelgisgæslunnar hafi verið í eftirlitsflugi fyrir vestan þegar útkallið kom og metið hafi verið að fljótlegast væri að óska eftir aðstoð á Ísafirði.

Þeir hafi þegar brugðist við og tekið með sér sitt hvort reykköfunartækið og aukakúta með lofti, auk slökkvigalla. Verkefnið hafi verið að nota búnaðinn í hellinum við jökulinn til eiturefnaköfunar vegna lélegra loftgæða.

„Veðuraðstæður voru þannig að ekki var hægt að lenda við hellinn, svo þyrlan lenti 3-4 kílómetra frá slysstað,“ segir Hlynur Kristjánsson. „Þaðan fórum við á vélsleðum starfsmanna í Kerlingarfjöllum að hellinum og vorum komnir þangað upp úr klukkan átta um kvöldið, en við þessar aðstæður er maður svo sem ekki að fylgjast nákvæmlega með klukkunni.“

Þeir byrjuðu á því að meta aðstæður og koma upp öryggislínum. Að þeim undirbúningi loknum fóru Ísfirðingarnir inn í hellinn. Hlynur segir að aðkoman að hellinum hafi ekki verið erfið þó að snjórinn hafi verið þungur og blautur og ekki hafi þurft að síga inn í hellinn. Þeir hafi komið inn í stóra hvelfingu og þar hafi þeir fljótlega fundið manninn, en hann var þá látinn. Dánarorsök liggur ekki fyrir.

Gildi brennisteinsdíoxíðs var þá orðið mjög hátt og segir Hlynur að hann hafi fengið upplýsingar um að ef gildin færu yfir 50 væru þau illviðráðanleg. Inni í hellinum hafi þau hins vegar toppað í yfir 250 mælieiningum.

Var að taka til kvöldmatinn

Þeir nafnarnir fóru með þyrlunni til Reykjavíkur og voru komnir upp í rúm í Slökkvistöðinni í Hafnarfirði um klukkan fjögur um nóttina. „Það er mjög gott samstarf á milli slökkviliða og þeir höfðu pláss fyrir okkur,“ segir Hlynur. Heim til Ísafjarðar var síðan flogið með fyrstu vél á fimmtudagsmorgun.

Hlynur segir að vissulega sé það sérstakt að menn séu fluttir um langan veg vegna útkalla, en í starfi slökkviliðsmanns megi búast við ýmsu. „Eftir venjulegan miðvikudag var ég kominn heim og var að taka til kvöldmatinn. Það hvarflaði ekki að mér að klukkustundu síðar yrði ég kominn um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar og væri á leið í átt að Hofsjökli,“ segir Hlynur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert