Telur #metoo-byltinguna hafa rist djúpt

Dr. Þorgerður H. Þorvaldsdóttir segir lítinn áhuga á útvíkkun jafnréttisstarfs …
Dr. Þorgerður H. Þorvaldsdóttir segir lítinn áhuga á útvíkkun jafnréttisstarfs hérlendis. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

„Ég held og vona að þetta sé ekki svona mál sem verður á allra vörum alls staðar í tvær vikur og svo detta þau niður. Ég held að þetta risti dýpra og ég held og vona að þetta verði til þess að samfélagssáttmálanum verði breytt,“ segir Þorgerður H. Þorvaldsdóttir doktor í kynjafræði um #metoo-byltinguna í samtali við mbl.is.

Þorgerður hélt erindi á Jafnréttisþingi í dag þar sem hún vék meðal annars að því hvernig #metoo-byltingin hefði hrist upp í stoðum feðraveldisins. Hún segist fullviss um að ekki séu enn allar frásagnir um kynferðislega áreitni eða ofbeldi komnar fram og að í framtíðinni verði fólk öruggara með að standa upp og koma fram og láta vita af áreitni og ofbeldi.

„Þetta er mein sem hefur gegnsýrt samfélagið en ég held að við líðum það ekki lengur,“ segir Þorgerður, en er þó ekki svo bjartsýn að hún haldi að „frá og með 1. apríl verði allt orðið gott.“

Það sem Þorgerður telur að #metoo-byltingin hafi hins vegar gert er að breyta allavega einu af því sem var áberandi í frásögnum kvenna í mörgum starfsgreinum og hópum samfélagsins sem létu í sér heyra.

Hún er að tala um karlinn sem allir vita af en enginn talar um.

„Það er karlinn sem er svolítið slæmur með víni og allir vita af því og segja „passaðu þig“ eða þá að þess er bara beðið að ungar stelpur lendi í honum. Ég held að sá kúltúr hljóti að breytast,“ segir Þorgerður.

Áhugaleysi um útvíkkun jafnréttisstarfs

Titill Jafnréttisþingsins í ár er Útvíkkun jafnréttisstarfs - #metoo og margbreytileiki og segir Þorgerður að þegar komi að útvíkkun jafnréttisstarfs, þ.e. að láta jafnréttisstarfið takast á við misrétti sem byggist á stétt, kynþætti, þjóðerni, kynhneigð, aldri og fötlun sé áhuginn hérlendis afar lítill.

Þorgerður segir að Íslendingar hafi lengi verið efstir á lista yfir jafnrétti kynjanna en þegar komi að formlegum lagaramma sem tryggi ólíkum hópum sömu réttindi séum við eftirbátar allra landa Evrópusambandsins, sem hafi innleitt tilskipanir og regluverk sem tekur formlega á misrétti gagnvart þessum hópum.

„Ég skrifaði doktorsritgerð sem snerist um útvíkkun jafnréttisstarfs og var tíu ár að vinna í henni og fór aldrei í fjölmiðlaviðtal út af því,“ segir Þorgerður. Á móti stoppi síminn hjá henni ekki þegar hún vinni verkefni um hlutverk og stöðu kvenna í fjölmiðlum.

Jafnréttisþingið 2018 fer fram á Hilton Nordica.
Jafnréttisþingið 2018 fer fram á Hilton Nordica. mbl.is/Hanna

Doktorsritgerð Þorgerðar kom út árið 2012 og leiddi í ljós mikla togstreitu í umræðunni um útvíkkun jafnréttisstarfs. Niðurstaðan var sú að útvíkkun sé bæði æskileg og óhjákvæmileg því kynjajafnrétti verði ekki að fullu náð nema einnig sé tekið á misrétti sem byggist á stétt, kynþætti, þjóðerni, kynhneigð, aldri og fötlun.

Í umfjöllun um doktorsvörn Þorgerðar kemur fram að áskorunin felist í því að finna lagalegan og stofnanalegan farveg til þess að sinna „jafnrétti allra“, án þess að missa sjónar á kynjajafnrétti.

Það hefur gengið hægt hérlendis.

Atvinnulífið vilji ekki íþyngjandi regluverk

„Þetta hefur verið á þingmálaskrá allavega frá árinu 2014, en aldrei komist inn í umræður á Alþingi. Eygló [Harðardóttir] var rosalega spennt að koma þessu að og Þorsteinn [Víglundsson] var það líka, en það gerist ekkert og það er ekki af því að það séu opinberlega einhverjir að berjast gegn því,“ segir Þorgerður en segist þó hafa heyrt að Samtök atvinnulífsins hafi sett sig upp á móti hugmyndum um aukið regluverk til að tryggja réttindi allra.

„Þau vilja bara geta gert hlutina og ekki vera að burðast með eitthvað íþyngjandi regluverk eins og vinnumarkaðstilskipanir sem myndu snúa að þeim,“ segir Þorgerður, en bendir þó á að sannarlega lúti 65. grein stjórnarskrárinnar hérlendis að nokkru leyti að sömu hlutunum, en sé þó „svona almennt orðuð „goodwill“ vernd“ frekar en áhrifaríkt breytingatæki, sem tilskipanir í löndum Evrópusambandsins hafi reynst vera.

 65. gr. 
 [Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. 
 Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.] 1) 

Jafnréttisþingið 2018 heldur áfram í fyrramálið með málstofum í tveimur ráðstefnusölum á Hilton Nordica og verður slitið í hádeginu með ávarpi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert