Mismununin í samfélaginu oft falin

Auður Tinna Aðalbjarnardóttir héraðsdómslögmaður heldur erindi sitt á Jafnréttisþingi.
Auður Tinna Aðalbjarnardóttir héraðsdómslögmaður heldur erindi sitt á Jafnréttisþingi. mbl.is/Hanna

„Í starfi mínu sem lögmaður hefur upplifun mín verið sú að við lifum á tímum óbeinnar mismununar, mismununar sem ekki virðist vera til staðar við fyrstu sýn en finnst þegar betur er að gáð,“ sagði Auður Tinna Aðalbjarnardóttir héraðsdómslögmaður í erindi sínu á Jafnréttisþingi í dag.

Hún fjallaði um mismunun sem hún hefur upplifað á síðastliðnu ári í starfi sínu og nefndi tíu dæmi í heild. Fjögur tengdust þjóðerni, tvö aldri og einnig fjallaði hún um mál sem tengjast mismunun á grundvelli búsetu, fötlunar, efnahags og kyns.

„Töluverður munur er á réttindum þeirra innflytjenda hérlendis sem hafa EES-ríkisfang og þeirra sem hafa það ekki,“ sagði Auður.

Nefndi hún sem dæmi að börn sem fæðist hér fái ekki dvalarleyfi, þrátt fyrir að foreldrar þeirra séu með dvalarleyfi og séu hér á landi í grunnnámi í háskóla. Útlendingastofnun telji sér ekki heimilt, samkvæmt útlendingalögum, að veita þeim dvalarleyfi.

„Slík börn búa við töluverða réttaróvissu og tel ég nokkuð skýrt að þeim sé mismunað á grundvelli þjóðernis foreldra þeirra,“ sagði Auður.

Hún nefndi einnig dæmi um mismunun vegna efnahags, þar sem einstaklingur sem hafði dvalið hér með löglegum hætti í átta ár sóttist eftir því að fá íslenskan ríkisborgararétt en fékk neitun frá Útlendingastofnun á grundvelli þess að tekjur hans væru það lágar að þær uppfylltu ekki tekjuviðmið Útlendingastofnunar og því gæti hann ekki uppfyllt það skilyrði að geta framleytt sér hérlendis.

„Hvorki lög né lögskýringargögn gera ráð fyrir þessari þröngu túlkun Útlendingastofnunar og viðkomandi hafði vissulega getað framfleytt sér undanfarin ár, þrátt fyrir að um lágar tekjur væru að ræða. Einstaklingurinn var einfaldlega nægjusamur og í námi þar að auki,“ sagði Auður.

Horfa má á framsögu Auðar Tinnu og aðra dagskrá Jafnréttisþings hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka