Sækja ekki heimsmeistaramótið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Ríkisstjórnin hyggst taka þátt í aðgerðum vestrænna ríkja vegna taugagasárásarinnar í enska bænum Salisbury í byrjun mánaðarins. Hins vegar verða rússneskir sendiráðsstarfsmenn ekki reknir úr landi líkt og víða hefur verið gert.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að þess í stað verði „öllum tvíhliða fundum með rússneskum ráðamönnum og háttsettum embættismönnum verður frestað um óákveðinn tíma. Af þeirri ákvörðun leiðir að íslenskir ráðamenn munu ekki sækja heimsmeistaramótið í Rússlandi á komandi sumri.“

Anton Vasiliev, sendiherra Rússlands, yfirgefur utanríkisráðuneytið.
Anton Vasiliev, sendiherra Rússlands, yfirgefur utanríkisráðuneytið. mbl.is/Árni Sæberg

Fundað var um málið í ríkisstjórninni í dag og í framhaldinu kom utanríkismálanefnd Alþingis til fundar við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra í utanríkisráðuneytinu. Eftir þann fund var sendiherra Rússlands, Anton Vasiliev, boðaður til fundar í ráðuneytinu þar sem honum var tilkynnt ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Fréttatilkynningin í heild:

„Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið taka þátt í samstilltum aðgerðum vestrænna ríkja vegna efnavopnaárásar í enska bænum Salisbury í upphafi mánaðarins. Árásin er alvarlegt brot á alþjóðalögum og ógnun við öryggi og frið í Evrópu. Efnavopnum hefur ekki verið beitt í álfunni frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Viðbrögð rússneskra stjórnvalda við árásinni hafa hingað til verið ótraustvekjandi og yfirlýsingar þeirra ótrúverðugar. 

Frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, mörg samstarfsríki Íslands í Atlantshafsbandalaginu, og helstu aðildarríki Evrópusambandsins hafa ákveðið að grípa til aðgerða gagnvart rússneskum stjórnvöldum. Í flestum tilvikum vísa þessi ríki rússneskum stjórnarerindrekum úr landi. Af hálfu Íslands felast aðgerðirnar í því að öllum tvíhliða fundum með rússneskum ráðamönnum og háttsettum embættismönnum verður frestað um óákveðinn tíma. Af þeirri ákvörðun leiðir að íslenskir ráðamenn munu ekki sækja heimsmeistaramótið í Rússlandi á komandi sumri.

Eftir að hafa borið ákvörðun ríkisstjórnarinnar undir utanríkismálanefnd Alþingis kallaði utanríkisráðherra sendiherra Rússlands á sinn fund nú síðdegis og greindi honum frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert