„Jafnrétti í orði en enn ekki á borði“

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Stóra samhengi kristinnar kirkju, konurnar í guðspjöllunum, jafnréttismál og frásagnir kvenna í nútímanum voru meðal þess sem Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, fjallaði um í páskapredikun sinni í Dómkirkjunni í morgun.

Agnes talaði um stöðu kvenna og benti einnig á þá staðreynd að í guðspjöllunum kemur fram að konur voru fyrstu boðberar kristinnar trúar. „En hryggð þeirra breyttist í fögnuð.  Kærleiksverkið þeirra breyttist því þær fengu það hlutverk að vera sendar fyrstar allra til að flytja tíðindin miklu um að lífið hefði sigrað dauðann.  Vald mannanna hafði ekki síðasta orðið. Þær voru sendar til að boða líf, sem er ljós mannanna. (…) Það voru sem sagt konur sem fyrstar fluttu boðin um upprisuna.“

Hún fjallaði einnig um jafnréttismál og frásagnir kvenna í nútímanum sem einkennast gjarnan af baráttu. „Margar konur lýsa því hvernig gert er lítið úr orðum þeirra og gjörðum. Þagað yfir góðum verkum þeirra og fundið að þeim. Konur heimsins búa margar við óviðunandi lífskjör og eru þvingaðar til verka sem ekki eru sæmandi virðingu þeirra. Konur eru seldar í kynlífsþrælkun og litið niður á þær. Það er ekki í anda hins upprisna Jesús að fara þannig með fólk.“

Agnes sagði að þó staða kvenna hér á landi sé betri en í mörgum öðrum löndum er þó nokkuð í land með að fullu jafnrétti sé náð. „Það er jafnrétti í orði en enn ekki á borði. Það er eitt af verkefnum okkar að vinna að fullu jafnrétti kynjanna og fólks almennt. Það er í anda hins upprisna Jesú sem boðaði í orði og verki jafnan rétt allra manna til lífs,“ sagði biskup í predikun sinni.

Biskup endaði predikun sína á að óska öllum fermingarbörnum vorsins til hamingju með það val að leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert