Moldarslóð vörubíla verður að svifryki

Svifryk í borginni mælist ítrekað yfir heilsuverndarmörkum.
Svifryk í borginni mælist ítrekað yfir heilsuverndarmörkum. mbl.is/RAX

Styrkur svifryks í Reykjavík hefur tólf sinnum á þessu ári mælst yfir sólarhrings heilsuverndarmörkum á mælistöð Umhverfisstofnunar við Grensásveg, en það er sú stöð sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur miðar við þegar tölur eru teknar saman.

Heilsuverndarmörk fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra á sólarhring, en síðasta sólarhring mældist styrkurinn um 95 míkrógrömm að meðaltali við Grensásveg. Um kvöldmatarleytið í gær mældist hálftímagildi svifryks 366,3 míkrógrömm á rúmmetra á sömu mælistöð, en hún er staðsett þar sem má búast við einna verstu loftgæðum í borginni, meðal annars vegna umferðar.

Ekki bara rykið af götunum

Kristín Lóa Ólafsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, býst við því að styrkurinn mælist einnig mjög hár í dag. Hún segir ýmislegt valda þessum háa styrk svifryks, en einn sökudólgurinn er að sjálfsögðu nagladekkin. Þá er einnig að koma sandur af Suðurlandi vegna mikilla vinda og fjöldi framkvæmdasvæða í Reykjavík hefur sín áhrif. „Það var mjög þurrt í gær og maður sá sandinn koma ofan af heiði, svo er bara mikið ryk í umhverfinu. Það eru opin vinnusvæði hér og þar. Þetta eru ekki bara göturnar. Þetta er líka svifryk úr umhverfinu. Þetta er blanda af þessu öllu.“

Kristín Lóa segir tólf skipti vissulega vera of oft, en samkvæmt reglugerð má styrkurinn fara 35 sinnum yfir áðurnefnd heilsuverndarmörk. Reglugerðinni var breytt árið 2016, en áður mátti styrkurinn aðeins fara yfir mörkin sjö sinnum á ári. Engin viðurlög eru þó við því ef styrkurinn fer oftar yfir mörkin en miðað er við í reglugerðinni.

Mikilvægt að bleyta jarðveg og þvo dekk

Ýmislegt er hins vegar hægt að gera til að draga úr svifryki í andrúmsloftinu, að sögn Kristínar Lóu, og þar er hægt að beita viðurlögum. „Fólk á til dæmis að vera farið af nagladekkjunum núna en það er eflaust fullt af fólki enn þá á nöglum. Þar eru viðurlög. Lögregla getur stoppað þá sem eru á nöglum og sektað þá. Þá er verið að reyna að fá í gegn breytingar á lögum um nagladekk, en þau hafa heilmikil áhrif.“

Kristín Lóa segir verktaka á framkvæmdasvæðum einnig verða að fara eftir skilmálum frá byggingarfulltrúa um aðgerðir til að sporna við jarðvegsfoki. „Það á að bleyta í grunnum á þessum svæðum þegar það er hætta á því að það rjúki úr, eins á Hlíðarendasvæðinu. Það eiga líka að vera þvottavélar til staðar til að þvo dekkin á bílunum áður en þeir fara út á götu. Ef vörubílarnir keyra moldugir út á götu þá kemur moldarslóð sem þornar upp og verður hluti af svifrykinu. Það er eitthvað sem þarf að taka harðar á. Þetta eru svo margir þættir sem væri kannski hægt að stýra betur.“

Hér á má fylgjast með loftgæðum í borginni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert