Pínulítill fjölmiðill varðist til enda

Sigmundur Ernir, ritstjóri Hringbrautar.
Sigmundur Ernir, ritstjóri Hringbrautar.

„Ég er hæstánægður með Hæstarétt,“ segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Hringbrautar, en Hæstiréttur sýknaði hann í dag í meiðyrðamáli sem Guðmundur Spartakus Ómarsson höfðaði gegn honum vegna ummæla sem birtust í frétt á Hringbraut í janúar 2016. Hæstiréttur staðfesti þar með fyrri dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu.

„Ég trúði aldrei öðru en að málið færi á þennan veg, enda erum einfaldlega bara að vitna í annan fjölmiðil sem hélt innihaldinu fram. Ég skildi í raun aldrei þennan málatilbúnað af hálfu kærandans,“ segir Sigmundur en umrædd frétt var byggð á fréttaflutningi RÚV og það tekið þrívegis fram. Þá var í eitt skipti vísað til annars innlends fjölmiðils og tvisvar til erlendra fjölmiðla.

Sigmundur segir niðurstöðuna einnig ákveðinn sigur fyrir fjölmiðlana sem slíka. „Ég vek líka athygli á því að við sem pínulítill fjölmiðill ákváðum að fara þessa leið og verjast til enda, en ekki gera einhverjar málamiðlanir á leiðinni eins og aðrir og stærri miðlar hafa reynt,“ segir hann jafnframt og vísar þar meðal annars til þess að RÚV gerði samkomulag um málalok vegna málshöfðunar Guðmundar á hendur RÚV, þremur fréttamönnum og útvarpsstjóra.

Guðmundur krafðist 10 milljóna króna en samið var um að RÚV greiddi honum 2,5 milljónir í málskostnað og miskabætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert