Vesturverk greiddi alla reikninga lögmannsstofunnar

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps.
Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps. mbl.is/Golli

Oddviti Árneshrepps ætlar að endurgreiða Vesturverki reikninga lögmannsstofu sem fyrirtækið borgaði en ættu með réttu að greiðast af sveitarfélaginu. Varaoddvitinn vakti athygli á því á fundi hreppsnefndar í dag, þegar önnur umræða um ársreikninga fór fram, að allir reikningar lögmannsstofunnar Sóknar, vegna ýmissa starfa fyrir hreppinn, væru greiddir af Vesturverki.

Vesturverk, sem er í meirihlutaeigu HS Orku, hyggst reisa Hvalárvirkjun í Árneshreppi. Stærstur hluti af greiðslum til lögmannsstofunnar er vegna mála er tengjast Hvalárvirkjun, m.a. vinnu við skipulagsmál henni tengdum. Hins vegar hefur kostnaður vegna annarra mála, s.s. athugunar á tryggingum vegna krana við höfnina, einnig verið greiddur af Vestverki. Af þessum sökum sagðist varaoddvitinn Ingólfur Benediktsson ekki geta samþykkt ársreikningana. Undir það tók Hrefna Þorvaldsdóttir sem einnig á sæti í hreppsnefndinni. Þrír samþykktu ársreikningana en þó með þeim fyrirvara að reikningar vegna mála ótengdum Hvalárvirkjun verði endurgreiddir Vesturverki.

Mun láta leiðrétta

„Við verðum að taka það til athugunar og láta leiðrétta það,“ sagði Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti er málið var tekið upp á fundinum við afgreiðslu ársreikninganna. „Ég mun skoða þetta og endurgreiða þá þann hluta  þetta er bara ókunnugleiki minn – annað en það sem tengist skipulagsmálum.“

Ingólfur benti á að endurskoðunarfyrirtækið KPMG hefði sent reikninga lögfræðifyrirtækisins Sóknar til sín og Evu í tölvupósti í gærkvöldi, þ.e. fyrir fundinn sem fram fór í dag. Evu hefði því mátt vera ljóst hvernig málið væri vaxið. Hann sagði að samtals næmu reikningar Sóknar 1,4 milljónum króna til dagsins í dag. „Þetta er allt sent beint á Vesturverk. það er sama hvað það er.“

Eva bent á að langstærstur hluti væri vegna mála er tengdust skipulagsgerð vegna fyrirhugaðrar virkjunar og annað henni tengt.

Ingólfur varaoddviti lét bóka á fundinum að hann geri alvarlegar athugasemdir við að allir reikningar sem komi frá lögmannsstofunni Sókn séu greiddir af Vesturverki. „Þarna skiptir engu máli hvort sú vinna sem þar er unnin er vegna Hvalárvirkjunar eða skipulagi henni tengt eða önnur vinna sem unnin er fyrir sveitarfélagið. Þar má nefna vinnu við fundarsamþykkt og athugun á tryggingum vegna krana. Þar af leiðandi er ekki hægt að álíta annað en að Jón Jónsson lögmaður sé í vinnu hjá Vesturverki.“

Á ekki að vera svona

Eva sagði að við fyrstu sýn teldi hún að endurgreiðslan myndi nema um 50 þúsund krónum. „Ég mun fara yfir þetta og endurgreiða Vesturverki það. Ég ætla ekki að fara að láta þá borga hitt og þetta, það er alveg á hreinu.“

Reikningarnir voru eins og fyrr segir samþykktir af þremur hreppsnefndarmönnum, þeirra á meðal Evu, með fyrirvara um endurgreiðslu til Vesturverks. „Ég legg við drengskap minn að þessu verður kippt í liðinn. Þetta á ekki að vera svona, ég er alveg sammála því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert