Vel greitt fyrir hagsmunagæslu

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, er efstur á lista tímaritsins Frjálsrar verslunar yfir starfsmenn hagsmunasamtaka og aðila vinnumarkaðarins sem hæstar tekjur höfðu á árinu 2017. Sigurður, sem tók við starfinu hjá SI síðasta sumar og starfaði áður sem framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku banka, var með 4.999.000 kr. á mánuði á síðasta ári.

Næstur á lista er Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, með 3.473.000 kr. á mánuði. Þar næstur er Almar Guðmundsson, sem hætti sem framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins í lok maí á síðasta ári, með 3.276.000 á mánuði.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, var með 2.985.000 kr. í mánaðarlaun og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, var með 2.599.000 á mánuði. Þá var Davíð Þorláksson, forstöðumaður hjá SA, með 2.149.000 kr. á mánuði og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Samtaka íslenskra sveitarfélaga, með 2.053.000 á mánuði.

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, var með 1.704.000 kr. á mánuði og Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi ráðherra og núverandi framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, var með 1.614.000 á mánuði.

Launahæstur starfsmanna launþegasamtaka er Guðjón Ármann Einarsson, framkvæmdastjóri Félags skipstjórnarmanna, með 2.937.000 á mánuði og næstur kemur Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, með 2.633.000 á mánuði.

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, var með 1.469.000 á mánuði í fyrra og Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, var með 1.485.000 á mánuði.

Algeng mánaðarlaun verkalýðsleiðtoga eru 1,1 til 1,35 milljónir króna, samkvæmt könnun Frjálsrar verslunar. Á því bili eru t.d. þau Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, Kristján Þórður Snæbjörnsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, Þórður Hjaltested, f.v. formaður Kennarasambands Íslands, Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, Sigurður Bessason, fv. formaður Eflingar, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, var með 926.000 á mánuði að meðaltali á síðasta ári og Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, var með 873.000 á mánuði.

Sá fyrirvari er á þessum tölum að tekjukönnun Frjálsrar verslunar byggist á álögðu útsvari eins og það birtist í álagningarskrám ríkisskattstjóra. Í einhverjum tilvikum kann að vera að skattstjóri hafi áætlað tekjur eða þá að útsvarsskyldar tekjur einstaklinga endurspegli ekki föst laun viðkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert