Hefur verið „afskaplega sársaukafullt“

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segist vera afskaplega ánægður með meginniðurstöður úttektar á málsmeðferð velferðarráðuneytisins á máli hans og Barnaverndarstofu.

Niðurstaða út­tekt­ar­inn­ar er að Bragi hafi ekki brotið af sér með upp­lýs­inga­gjöf til afa barna í Hafnar­f­irðinum, svo kölluðu Hafn­ar­fjarðar­máli, en að vel­ferðarráðuneytið hafi gerst brot­legt við grund­vall­ar­regl­ur stjórn­sýslu­rétt­ar­ins um and­mæla­rétt, sbr. 13. gr. stjórn­sýslu­laga. 

Hann er sömuleiðis ánægður með að skýrslan sé komin út en nefnir að honum hafi ekki gefist kostur á að lesa skýrsluna vandlega.

„Það er skiljanlega svo fyrir mann eins og mig sem hef helgað líf mitt baráttu fyrir réttindum barna, að það er afskaplega sársaukafullt að sitja undir því svo mánuðum skiptir að hafa með athöfnum stefnt öryggi barna í hættu með því að gera tilraun til að koma þeim í hendur á meintum barnaníðingi,“ segir Bragi og bætir við að hann hafi fórnað yfir 30 árum ævi sinnar í að berjast fyrir réttindum barna og sérstaklega gegn kynferðisofbeldi.

„Þessu hef ég þurft að sitja undir og það er mikill léttir að það mál er nú algjörlega úr sögunni.“

Bragi segir að ýmislegt mætti fleira segja um málið sem hefur verið í gangi en kveðst nú vilja halda áfram með líf sitt og líta á bjartari hliðar tilverunnar.

„Það er gott að þetta er afstaðið. Skýrslan er afdráttarlaus, hún er mjög vel unnin og afskaplega vel rökstudd í alla staði og raunar í öllum aðalatriðum kom hún mér ekki á óvart.“

Hefur ekki áhrif á framboðið

Spurður hvað niðurstaðan þýði varðandi framboð hans til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna staðfestir hann að ríkisstjórnin hafi ákveðið það á fundi sínum í morgun að málið myndi ekki hafa nokkur áhrif á framboð hans en kosið verður í nefndina 29. júní.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert