Fagnar að horft sé til heildarmyndar

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segist fagna þeirri heildstæðu vinnu til undirbúnings heilbrigðisstefnu sem nú er unnin í velferðarráðuneytinu. Í forstjórapistli sínum á vef Landspítala í dag vísar hann til skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey frá árinu 2016, Lykill að fullnýtingu tækifæra Landspítala, og þess sem þar kom fram um að heildarstefnu um veitingu heilbrigðisþjónustu virtist skorta hér á landi.

Í skýrslu McKinsey var ritað að ýmis starfsemi hefði færst á einkastofur, einnig á sviðum þar sem ávinningur væri af samþættri þjónustu háskólasjúkrahúss.

„Þessi staða er afleiðing þess að ekki hefur verið horft til heildarmyndarinnar við skipulagningu þjónustunnar heldur hefur of oft verið gripið til þeirra úrræða sem hendi eru næst svo úr hefur orðið nokkuð götóttur bútasaumur,“ skrifar Páll.

Misskilningur um kostnaðargreiningar

Páll segir jafnframt í pistli sínum að samhliða þeirri umræðu sem nú á sér stað um sérfræðilæknaþjónustu hafi enn komið upp sá misskilningur, síðast í Kastljósi RÚV á miðvikudagskvöld, að ekki liggi fyrir kostnaðargreiningar á starfsemi Landspítala né mælingar á afköstum.

„Þessu fer fjarri,“ skrifar forstjórinn. „Fáar, ef nokkur íslensk stofnun er jafn rækilega kostnaðargreind eða gefur jafn greinargóðar og reglulegar upplýsingar um starfsemi sína og Landspítali.“

Páll ritar að niðurstöður skýrslunnar frá McKinsey hafi verið á þá vegu að afköst væru miklu meiri á Landspítala en á erlendum samanburðarsjúkrahúsum og kostnaðarhagkvæmni einnig.

„Það er afar mikilvægt að í þessari umræðu sé staðreyndum til haga haldið og þeir sem að henni koma leiti sér viðeigandi upplýsinga,“ segir Páll.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert