Teygja sig til barnafjölskyldna

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á fundinum í morgun.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á fundinum í morgun. mbl.is/​Hari

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir töluvert mikil tíðindi vera í nýju fjárlagafrumvarpi sem koma við ólíka þætti.

„Í fyrsta lagi erum við að teygja okkur sérstaklega til barnafjölskyldna með hækkun á barnabótum og við erum að tryggja sérstaka hækkun á persónuafslættinum, auk þess að gera breytingar á viðmiðum fyrir fjárhæðamörk neðra og efra þreps í tekjuskatti. Þetta eru allt þættir sem tengjast því samtali sem hefur átt sér stað á árinu við aðila vinnumarkaðarins,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is að lokinni kynningu á fjárlagafrumvarpinu í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í morgun.

8 milljarða lækkun greiðir fyrir þröngri stöðu

Hann nefndi lækkun tryggingagjalds um hálft prósent í tveimur áföngum en fyrri hlutinn tekur gildi um áramótin og sá síðari ári síðar. Um er að ræða átta milljarða skattalækkun fyrir atvinnustarfsemina.

Krafa hefur verið uppi um að lækka gjaldið enn frekar en Bjarni sagði þetta vera það svigrúm sem ríkisstjórnin teldi sig hafa í bili. „Þetta horfir þá núna til næstu sextán mánaða eða svo og er átta milljarða lækkun sem ætti að greiða fyrir þeirri nokkuð þröngu stöðu sem manni sýnist vera á vinnumarkaðinum í dag og er í rökréttu samhengi við það sem við sögðum í stjórnarsáttmálanum.“

Fylgirit með fjárlagafrumvarpinu.
Fylgirit með fjárlagafrumvarpinu. mbl.is/​Hari

800 milljarða skuldalækkun síðustu ár

Bjarni benti á tíðindi í frumvarpinu varðandi þróun skuldastöðu ríkissjóðs. Á næsta ári næst 30% skuldaviðmiðið, fyrr en áætlað var. „Það er mjög stór áfangi vegna þess að þegar þetta viðmið var sett þótti mörgum að verið væri að spenna bogann nokkuð hátt og setja sér mjög háleit markmið en núna á árinu 2019 munum við ná því markmiði,“ sagði hann og nefndi að árangurinn kæmi í kjölfar þess að um 660 milljarða króna skuldir hefðu verið greiddar upp. „Þegar við bætum við fyrirframgreiðslum vegna ófjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga upp á 140 milljarða hefur ríkið verið að greiða inn á skuldir eða skuldbindingar upp á 800 milljarða á undaförnum árum. Við erum að byrja að njóta góðs af þessum ráðstöfunum.“

Hann sagði að vaxtagreiðslur lækkuðu fyrir vikið en þær hefðu lækkað hraðar á yfirstandandi ári en reiknað var með og munaði þar þremur milljörðum króna. Að sögn Bjarna munu þær halda áfram að lækka á næsta ári og gerist þetta vegna lægri skuldastöðu og bættra lánskjara.

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/​Hari

Síðustu afborganirnar greiddar upp

Nefndi hann að í næsta mánuði munsi ríkissjóður greiða upp síðustu afborgarnir af skuldabréfaútgáfunni RIKH 18 sem var ætlað að fjármagna endurreisn fjármálakerfisins á sínum tíma. „Í því felast mikil tímamót fyrir okkur. Það má segja að við höfum náð miklum áfanga þegar við gerðum upp öll neyðarlánin á sínum tíma, sem tengdust efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Núna erum við að ná nýjum áfanga þegar við gerum upp öll lánin sem tengdust fjármögnun bankakerfisins og á næstu ári náum við síðan skuldaviðmiðinu, sem er mjög stór áfangi.“

Spurður út í skuldastöðu ríkisins í dag segir hann að hún sé komin niður í 23,5% af landsframleiðslu og muni halda áfram að lækka á komandi árum.

Frá fundinumí morgun.
Frá fundinumí morgun. mbl.is/​Hari

Kjarasamningar áhættuþáttur

Inntur eftir því hvort kjarasamningar muni setja strik í reikninginn á komandi vetri sagði Bjarni þá vissulega vera áhættuþátt sem væri erfitt að spá fyrir um hvernig spilaðist úr.

Hann sagði ríkisstjórnina hafa sýnt vilja í verki til þess að hlusta og grípa til aðgerða í samræmi við þau samtöl sem hefðu átt sér stað við aðila á vinnumarkaðinum og vísaði til sérstakrar hækkunar á persónuafslætti í fjárlagafrumvarpinu, hækkunar á barnbótum og breytingar á fjárhæðamörkum milli skattþrepa, auk lækkunar á tryggingagjaldi.  Allt væru þetta þættir sem hefðu skipt máli í þessu samhengi, fyrir utan húsnæðismálin sem höfðu áður verið sett á dagskrá og væru fjármögnuð í nýja fjárlagafrumvarpinu.

mbl.is/​Hari

Samgöngumálin mjög fjárfrek

Gert er ráð fyrir 5,5 milljarða króna aukningu til samgöngumála sem skýrist fyrst og fremst af sérstöku átaki í samgöngumálum á árunum 2019 til 2021.

„Það sem er erfitt í þessum málaflokki almennt er að hann er mjög fjárfrekur og menn hreyfa sig ekki mikið fyrir hundruð milljóna. Allar meiriháttar framkvæmdir hlaupa á milljörðum,“ sagði Bjarni og talaði um að við værum að færast úr einum stórframkvæmdum í þá næstu og næst á dagskrá væri að klára Dýrafjarðargöng. Sömuleiðis þyrfti að sinna viðhaldi vegakerfisins og í fjárlagafrumvarpinu væri staðið við það sem áður hefði verið sagt í tengslum við samgöngumál.

„Ég leyni því ekki að það mætti vel sjá fyrir sér enn frekari framkvæmdir í samgöngumálum en þá kemur að því að við þurfum að fara að ræða fjármögnun slíkrar uppbyggingar. Það verður á dagskrá vetrarins að ræða í hvaða tilvikum við myndum fara í sérstaka fjármögnun á meiriháttar samgöngubótum.“

mbl.is/​Hari

Að komast í heilbrigðar tölur í hagvexti

Fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að draga muni úr hagvexti. Bjarni kvaðst ekki hafa áhyggjur af því. „Ég held að við séum að komast í mjög heilbrigðar tölur. Þetta hagvaxtarskeið er orðið mjög langt og ekki við því að búast að við höldum áfram að vaxa á þeim mikla hraða sem hefur verið,“ greindi hann frá og sagði topp hagsveiflunnar hafa náðst einhvern tímann á árinu 2016 eða snemma á síðasta ári. „Það er alveg í samræmi við væntingar að það dragi eitthvað úr hagvexti. Það er mikilvægast að við förum ekki beint yfir í samdráttarskeið og það eru mjög heilbrigðar hagvaxtartölur í flestum spám eins og sakir standa,“ sagði hann.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert