„Við viljum minnka freistnivandann“

mbl.is/Arnþór Birkisson

„Það er rakinn popúlismi að boða það hér rakalaust að taka ekki arð af því fé sem tekið er af því fé sem bundið er í Orkuveitunni og að það sé ekki eðlilegt að borgarbúar njóti þess, eins og nákvæmlega allir aðrir sem eiga bundið fé í fyrirtækjarekstri.“ Þetta sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri meðal annars um tillögu Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að Reykjavíkurborg hverfi frá argreiðslukröfum í eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur (OR), á aukafundi borgarstjórnar Reykjavíkur sem nú stendur yfir. Vill Sjálfstæðisflokkurinn að gjaldskrár verði lækkaðar til samræmis við þetta.

Til stendur að OR greiði eigendum sínum um 14 milljarða króna í arð á næstu sex árum, en það fé rennur í borgarsjóð og nýtist til ýmis konar verkefna borgarinnar í þágu borgarbúa. Sjálfstæðismenn vilja hins vegar hverfa frá þessu fyrirkomulagi, sem kveðið er á um í eigendastefnu OR, og frekar ráðast í veglegar gjaldskrárlækkanir. Tillagan var hins vegar felld.

Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði mikið svigrúm hjá OR til að lækka gjaldskrá og það þyrfti ekki að taka lán til þess, líkt og fyrir arðgreiðslunum. Hann sagði að það þyrfti einfaldlega að hætta að setja peninga í það sem ekki væri nauðsynleg þjónusta OR.

„Við erum að tala um það hvort taka eigi peninga út úr Orkuveitunni og setja inn í borgarsjóð af því það séu svo góð verkefni, en á hverjum degi heyrum við um einhver furðuverkefni sem fara fram úr áætlunum. Það eru allir orðnir leiðir á bragganum en hann er ágætis dæmisaga,“ sagði Eyþór og benti svo á að Orkuveituhúsið sjálft væri stærsta dæmið um framúrkeyrslu og mistök. „Við viljum minnka freistnivandann,“ sagði hann jafnframt.

Eiga að njóta ávaxtanna þegar vel gengur 

Hildur rifjaði upp hækkun á gjaldskrá Orkuveitunnar vegna rekstrarerfiðleika í kjölfar hrunsins og sagði að borgarbúar ættu nú að njóta góðs af þegar rétt hefði verið úr kútnum

„Í kjölfar hrunsins réðist Orkuveitan í aðgerðir til að rétta við reksturinn. Orkuveitan bjó hins vegar við þann munað að geta velt stórum hluta af sínum rekstarvanda yfir á borgarbúa. Meðal annars með gjaldskrárhækkunum,“ sagði Hildur og vísaði þar til verulegra hækkana sem borgarbúar tóku á sig eftir hrun. Hún sagði aðgerðirnar hafa leitt af sér verri þjónustu sem borgarbúar hafi neyðst til að greiða meira fyrir.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Heimilin greiddu fyrir rekstrarvanda Orkuveitunnar, með sambærilegum hætti ættu þau að njóta ávaxtanna þegar vel gengur.“

Hildur benti á að Reykjavíkurborg inniheimti nú hæsta mögulega útsvar og að tekjustofnar sem lög gera ráð fyrir væru nánast fullnýttir. „Samt er ákveðið að seilast enn lengra í vasa borgarbúa með arðgreiðslukröfum á Orkuveituna sem auðvitað leiða til óþarfalega hárra þjónustugjalda á íbúa. Háar gjaldskrár sem leiða til arðgreiðslna í hendur stjórnmálamanna eru ekkert annað en dulbúin skattheimta,“ sagði Hildur jafnframt.

Hún vill að borgasstjórn sendi skýr skilaboð á eigendafund Orkuveitunnar sem fer fram á föstudag um að fallið verði frá arðgreiðslum.

Eðlilegt að kalla eftir arði af áhættunni

Dagur sagði tillöguflutninginn sem og málflutninginn koma á óvart, enda væri það þannig að OR hafi frá upphafi greitt eigendum sínum árlegar greiðslur sem hafi verið ákveðnar á aðalfundum fyrirtækisins. Slíkar greiðslur hafi einnig tíðkast hjá þeim fyrirtækjum sem hafi runnið inn í OR.

mbl.is/Eggert

Hann minnti á að þegar OR var stofnað með sérlögum þá hafi verið sérstakt ákvæði sem fjallaði um að miða skyldi við að OR skilaði eðlilegum arði miðað við það fjármagn sem á hverjum tíma væri bundið í fyrirtækinu. Hann rifjaði upp að allir flokkar hafi staðið að eigendastefnu OR og hafi verið sammála um að eðliegt væri að taka arð.

 „Arður er ákveðinn hagræðingarkrafa til fyrirtækis eins og Orkuveitunnar og arður er líka afgjald af því fé sem bunduð er af hálfu almennings og borgarinnar sem eigenda í fyrirtækinu,“ sagði Dagur. Hann benti á að það væru yfir 100 milljarðar bundnir í OR og að borgarbúar hefðu á sínum tíma í raun lánað fyrirtækinu 12 milljarða.

„Það er þess vegna eðlilegt að kalla eftir eðlilegum arði af áhættunni og arðinum af því fé sem bundið er í Orkuveitunni og er ekki að nýtast í aðra hluti á sama tíma.“ Benti hann einnig á að gjaldskrár hefðu verið lækkaðar í þrepum á síðustu misserum.

Tillaga Sjálfstæðismanna var felld með 12 atkvæðum gegn 9.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert