Hætti við himinháar arðgreiðslur

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég tel rétt að Reykjavíkurborg hverfi frá áformum um himinháar arðgreiðslur. Gjaldskrár Orkuveitunnar verði lækkaðar til samræmis. Þetta er pólitísk ákvörðun. Ávinningurinn væri tvíþættur. Orkuveitan færðist nær hlutverki sínu sem orkufyrirtæki í almannaeigu – og borgarbúar fengju bót í heimilisbókhaldið.“

Þetta segir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag vegna fyrirhugaðra arðgreiðslna Orkuveitu Reykjavíkur til eigenda fyrirtækisins sem hún segir að fjármagna eigi með lántöku. Stærsti eigandi Orkuveitunnar er Reykjavíkurborg. Hildur rifjar upp í þessu sambandi að Orkuveitan hafi farið út í aðgerðir til þess að bregðast við bankahruninu á sínum tíma með miklum gjaldskrárhækkunum.

Gjaldskrá hækkuð á versta tíma fyrir borgarbúa

„Orkuveitan bjó hins vegar við þann lúxus - ólíkt öðrum fyrirtækjum - að geta velt rekstrarvandræðum nær alfarið yfir á borgarbúa. Sérstakur árangur í rekstri Orkuveitunnar var fenginn með gjaldskrárhækkunum, frestun nauðsynlegra fjárfestinga og fádæma heppni með ytri aðstæður. Fyrirtæki í einokunarstöðu hækkaði gjaldskrár á versta tíma fyrir sína viðskiptavini. Með einu pennastriki.“

Þetta hafi venjuleg fyrirtæki ekki getað gert. Flugfélög hafi til að mynda ekki getað leyft sér að hækka fargjöld einhliða til þess að bæta lausafjárstöðu sína. „Það er eftirtektarvert þegar óháðir stjórnarmenn OR bera í bætifláka fyrir þá ákvörðun hluthafa um greiða arð í hendur stjórnmálamanna. Þar er stjórnarmaðurinn kominn lóðbeint á hálan pólitískan ís.“

Eins og að greiða jólabónus með yfirdrætti

Hildur bendir ennfremur á að rétta sé að halda því til haga að umræðan snúist um arðgreiðslur fyrir árið 2016. „Ársreikningur þess rekstrarárs sýnir glöggt að fyrirtækið uppfyllti ekki þau arðgreiðsluskilyrði sem eigendastefna setur. Arðgreiðslan fór samt sem áður fram. Fjármögnuð með rándýru lánsfé. Það væri ekki ráðlegt ef öll heimili landsins greiddu sér jólabónus með yfirdrætti.“ Hún bætir síðan við:

„Borgarstjóri innheimtir nú þegar hæsta lögleyfða útsvar, hefur skuldsett borgina upp í rjáfur, innheimtir fasteignagjöld sem valda smærri fyrirtækjum verulegum vandræðum og eyðir því sem aflögu er í gæluverkefni. Afrakstur þessara sömu gæluverkefna er svo færður einkaaðilum undir markaðsverði. Samhliða setur borgarstjóri arðgreiðslukröfur á Orkuveituna – og skuldsetur svo fyrirtækið fyrir ævintýrinu. Allt á kostnað borgarbúa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert