„Hjákátlegt“ að vera boðuð til þinghalds

Lögmaður fjögurra þingmanna Miðflokksins sem sátu á barnum Klaustri 20. …
Lögmaður fjögurra þingmanna Miðflokksins sem sátu á barnum Klaustri 20. nóvember hefur sent Báru Halldórsdóttur, sem tók samtal þingmannanna upp, bréf þar sem hún er boðuð til þinghalds í Héraðsdómi Reykjavíkur. Samsett mynd/mbl.is

„Það var eiginlega bara svolítið hjákátlegt,“ segir Bára Halldórsdóttir um bréfið sem henni barst í gær þar sem hún er boðuð til þing­halds í Héraðsdómi Reykja­vík­ur vegna beiðni frá lög­manni fjögurra þingmanna Miðflokksins vegna mögulegs einkamáls.

Bára var stödd á Klaustri bar 20. nóv­em­ber síðastliðinn þegar hún varð nokk­urra þing­manna vör sem fóru ill­um orðum um kon­ur, fatlaða og sam­kyn­hneigða. Hún tók sam­töl þing­mann­anna upp og sendi fjöl­miðlum nokkru síðar.

„Mér fannst þetta eiginlega bara svolítið fyndið, þetta bréf inniheldur einhverjar flækjur sem ég skil ekki,“ segir Bára, sem var á leið til fundar við lögfræðing til að fá nánari útskýringu á boðuninni þegar blaðamaður mbl.is náði tali af henni.   

Bára er boðuð sem aðili máls til þinghaldsins en ekki til að skýrslutöku eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum. RÚV hefur eftir Símoni Sighvatssyni, dómsstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, að Bára sé boðuð til að gera henni ljóst að hugsanlega verði höfðað mál gegn henni og hún gæti því þurft að bregðast við því. 

Bára Halldórsdóttir hefur verið boðuð til þing­halds í Héraðsdómi Reykja­vík­ur …
Bára Halldórsdóttir hefur verið boðuð til þing­halds í Héraðsdómi Reykja­vík­ur 17. desember. Ljósmynd/Aðsend

„Geta ekki einu sinni munað nafnið mitt“

Bára er ranglega feðruð í bréfinu sem henni barst í gær, sögð Guðmundsdóttir en ekki Halldórsdóttir. Henni var síðar fært bréf með réttu nafni. Vísir greinir frá því að mistökin megi rekja til beiðni lögmanns þingmannanna.

Bára segir að þessi mistök séu skýrt dæmi um hvernig litið sé á hennar aðkomu í Klaustursmálinu. „Ég held að það ýti undir það hversu miklu máli ég skipti í þessu, ég greinilega skipti ekki það miklu máli að þau geta ekki einu sinni munað nafnið mitt rétt.“

Í bréfinu er Bára sögð Guðmundsdóttir en ekki Halldórsdóttir.
Í bréfinu er Bára sögð Guðmundsdóttir en ekki Halldórsdóttir.

Bára vildi að öðru leyti ekki tjá sig um næstu skref fyrr en eftir að hún er búin að ræða við lögfræðing, en hún sagði í samtali við mbl.is í fyrradag að lög­fræðing­ar hafa haft sam­band við hana að fyrra bragði og boðið fram aðstoð sína. „Ég mæti ef að ég á að mæta. Það kemur í ljós þegar ég er búin að tala við einhverja sem hafa meira vit á þessu en ég.“

Þakklát fyrir stuðning réttláts fólks

Þrátt fyrir mögulega málsókn segir Bára að hún finni enn fyrst og fremst fyrir stuðningi. Jón Gnarr, grínisti og fyrrverandi borgarstjóri, lýsti yfir stuðningi við Báru á Twitter í gær þar sem hann segist vera til­bú­inn til að efna til söfn­un­ar fyr­ir Báru ef „svo ólík­lega vildi til“ að hún yrði dæmd til að „borga eitt­hvað“.

„Þetta er voðalega gott að vita að fólk sem er réttsýnt standi með manni,“ segir Bára. Þá hefur einnig verið stofnaður hópur henni til stuðnings á Facebook: Takk Bára og eru liðsmenn hans yfir 8.600. Hópurinn stendur fyrir samstöðuviðburði fyrir Báru á mánudag fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur þegar Bára á að mæta til þinghalds. „Það er ótrúlega gott að vita af fólki þarna úti sem að styður mann,“ segir Bára.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert