Of snemmt að tala um verkföll

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, kemur til fundar í Ráðherrabústaðnum …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, kemur til fundar í Ráðherrabústaðnum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er alltof snemmt að spá fyrir um það,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is spurður hvort verkföll kunni að vera í kortunum vegna deilna á vinnumarkaði. Margt sé að gerjast innan verkalýðshreyfingarinnar og meðal annars skiptar skoðanir um það hvort vísa eigi deilunni til ríkissáttasemjara eða ekki. Ragnar at fund fulltrúa stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í Ráðherrabústaðnum í dag.

„Verði tekin ákvörðun um að leita til ríkissáttasemjara þá erum við í rauninni að koma kjaraviðræðunum undir aðra verkstjórn og það þýðir þá einfaldlega að við munum leggja allt í sölurnar við að reyna að ná samningum á þeim vettvangi ef það gerist. Það eru skiptar skoðanir innan hreyfingarinnar hvort það eigi að vísa málinu til ríkissáttasemjara eða gefa því lengra tækifæri,“ segir hann ennfremur spurður um stöðu mála.

„Við höfum verið þeirrar skoðunar að það hafi einfaldlega of lítið komið fram og í raun ekkert í sjálfu sér komið fram um svigrúm frá Samtökum atvinnulífsins og stjórnvöldum sem að sýnilega gæti gert það að verkum að við getum haldið mikið lengra áfram á þessum vettvangi. En það er alltof snemmt að segja til um það hvort það komi til einhverra átaka eða ekki. Ég er bjartsýnn maður að eðlisfari og ég held að við náum saman, það er mín skoðun og mín stefna að ná saman fyrir rest. Og við munum ná saman. Það er ekki spurning um það heldur bara hvenær og hvernig og hvað þarf til þess að það gerist.“

Spurður um mögulegt samflot með öðrum stéttarfélögum segir Ragnar: „Við erum bara að meta stöðuna frá degi til dags. Þetta er flókið mál og það þarf að hugsa allar ákvarðanir og alla leiki vel fram í tímann. Mín skoðun er sú að eftir því sem við erum fleiri og eftir því sem við erum sameinaðri þá eru við sterkari og höfum meiri slagkraft. Það hefur verið vilji samninganefndar VR að vinna með sem flestum. Við munum fagna öllum þeim stéttarfélögum og landssamböndum sem eru tilbúin að vinna með okkur.“

Hins vegar sé mikilvægt að hafa í huga að jafnvel þó samflot verkalýðsfélaga breytist verði þau áfram í samstarfi á vettvangi ASÍ. „Það er mikill hugur í öllum félögunum um að fara sameiginlega í húsnæðismálum og skattamálum og meira að segja vilji til þess að taka það samstarf og víkka það enn frekar út og bjóða opinberu félögunum að borðinu. það eru allir mjög meðvitaðir um að þessi mál verða ekkert leyst nema með samstöðu á þeim vettvangi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert