Segir þokuna í gær mengunarþoku

Þykk þoka lá yfir höfuðborginni í gærkvöldi, meðal annars á …
Þykk þoka lá yfir höfuðborginni í gærkvöldi, meðal annars á Skarfabakka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útlit er fyrir að þykk þoka sem lá yfir höfuðborgarsvæðinu í gær hafi verið mengunarþoka, en ekki hefðbundin hrímþoka. Þetta kemur fram í færslu Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings á Facebook. 

„Í gærkvöldi myndaðist þoka í kyrrviðrinu. Hrímþoka kallast hún þegar er frost og hélar allt í kring. Þokuslæðurnar drógu verulega úr skyggni, en þunnar voru þær og fullur máninn sást greinilega í gegn,“ ritar Einar, en þegar líða tók á kvöldið hvarf þokan snögglega. 

Hrímþoka er ekki óalgeng undir hitahvörfum í frosti í innsveitum og til fjalla þegar nánast logn er. Það er hins vegar margt sem bendir til þess að þetta fyrirbæri hér í bænum hafi myndast að stórum hluta vegna mengunar frá bílaumferð og í raun verið lík hinni ensku "Smog" fremur en hrein hrímþoka,“ bætti Einar við og rakti þetta nánar.

„Í þungri síðdegisumferðinni í gær safnaðist upp lofttegundin NO2 eða köfnunarefnisdíoxíð. Há gildi mældust til að mynda á Grensásvegi og fylgir með klippa af ágætum nýjum upplýsingavef Umhverfisstofnunar. Þegar loftið er fyrir fremur rakt eins og raunin var í gær hvetja NOx gastegundir til þéttingar áður en rakamettun loftsins er náð. Það verður efnahvarf sem ég læt aðra um að skýra,“ ritaði hann.

„Á Kjalarnesi og í Straumsvík (þar eru veðurstöðvar) var ekki þoka en mjög nærri rakamettun. Í stað þokunnar þéttist rakinn á yfirborði og myndaði hrím. Þar sem NO2 var til staðar í nægjanlegum mæli þéttist hins vegar í mengunarþoku sem hvarf síðan þegar dró úr umferð og styrkurinn lækkaði. Áfram hélst hins vegar rakt í nótt og svo er enn. Spurning hvað gerist í logninu í dag þegar umferðin nær hámarki [...],“ ritaði Einar og vísaði til gamallar fréttar Morgunblaðsins um hrímþoku sem lagðist á höfuðborgina á aðventu fyrir rúmum tuttugu árum síðan. Í fréttinni kom fram að mengun hafi átt þátt í að þokan myndaðist.

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka