Mun minni svifryksmengun í ár

Svifryk mældist miklu minna þegar mest var upp úr miðnætti …
Svifryk mældist miklu minna þegar mest var upp úr miðnætti í nótt miðað við áramótin á undan. mbl.is/​Hari

„Þetta var miklu skárra en í fyrra,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, loftgæðasérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, um svifryksmengun á gamlárskvöld. Hann segir að veðrið sé ríkjandi þáttur en þrátt fyrir stillt veður í gærkvöldi og nótt var meiri hreyfing á vindi en áramótin 2017/2018.

„Í Dalsmára fór gildið upp í 4600 en núna var það um 1600,“ segir Þorsteinn og var gildi svifryks upp úr miðnætti í ár þriðjungur af því sem var fyrir ári síðan. Segir Þorsteinn þar að auki mestu mengunina hafa staðið skemur yfir en í fyrra. „Þetta var búið um miðja nótt en í fyrra var svifryksmengunin fram á miðjan nýársdag,“ segir hann.

Þorsteinn Jóhannsson sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.
Þorsteinn Jóhannsson sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. Ljósmynd/Aðsend

„Ástandið er gott núna á öllum mælistöðum. Það er spurning hvort það hangi eitthvað á Dalsmára ennþá,“ segir Þorsteinn en bendir á að svifryksmælarnir séu ekki beint hannaðir til þess að mæla gildi þegar þau fara yfir þúsund og það gæti því skekkt mælingarnar eitthvað í dag.

„Þar er gildið í um það bil 50 núna sem telst ekki mjög hátt miðað við nýársdag. Í fyrra var gráblá móða yfir öllu en í dag er þetta bara eðlilegur vetrarmorgunn,“ segir Þorsteinn.

Sérstökum svifrykssöfnurum var komið fyrir við Dalsmára og Grensásveg fyrir áramótin í ár til þess að hægt sé að efnagreina svifrykið. Þorsteinn segir að áfram verði safnað sýnum fram á þrettándann en þá verði síurnar sóttar og þær sendar á rannsóknarstofu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert