Ákæruefnin handvalin af ákæruvaldinu

Reimar Pétursson, verjandi Kristjáns Georgs Jósteinssonar, sagði heildarmynd viðskipta hans …
Reimar Pétursson, verjandi Kristjáns Georgs Jósteinssonar, sagði heildarmynd viðskipta hans alls ekki tortryggilega. mbl.is/Eggert

Reimar Pétursson, verjandi Kristjáns Georgs Jósteinssonar, lagði áherslu á það í málflutningsræðu sinni að framburður skjólstæðings síns fyrir dómi hefði verið trúverðugur. Hann sagði ákæruvaldið reyna að „afbaka málið á litlu punktunum“, til dæmis með því að halda því til haga að Kristján Georg hefði ekki getað svarað því við yfirheyrslu hvað skiptasamningur væri.

Þá sagði hann að ákæruvaldið væri að handvelja viðskipti til að ákæra fyrir, en Kristján Georg hafði komið að sextán viðskiptum með afleiður í tengslum við hlutabréfaverð Icelandair Group, en ákært er fyrir fern viðskipti.

Auk þess sagði Reimar að ákæruvaldið færi fram á að afsláttur yrði gefinn á sönnunarfærslu í nánast hverju einasta atriði.

„Heildarmynd viðskiptanna er alls ekki tortryggileg, stundum er hagnaður, stundum er tap,“ sagði Reimar, sem varpaði upp grafi á skjái dómsalsins þar sem farið var yfir þróun hlutabréfaverðs í Icelandair Group, fjölmiðlaumfjöllun um félagið og alla þá samninga sem Kristján gerði persónulega eða fyrir hönd VIP Travel, um viðskipti tengd félaginu.

„Það er reyndar þannig að besti samningurinn sem er gerður þarna, hann er gerður á tímabili þar sem Icelandair sendi ekki frá sér neina einustu tilkynningu. Ekki bendir það nú til þess að verið sé að stunda einhver stórkostlega vafasöm viðskipti,“ sagði Reimar.

Fjölmiðlaumfjöllun skýri ákvarðanatöku Kristjáns

Kristján Georg sagði fyrir dómi í gær að hann hefði tekið ákvarðanir um viðskipti sín sjálfstætt, meðal annars með því að fylgjast með fréttum sem tengdust Icelandair. Reimar fór yfir fjölmiðlaumfjöllun í aðdraganda þeirra viðskipta sem ákært er fyrir, til þess að sýna dóminum að fréttir íslenskra fjölmiðla um Icelandair og reyndar líka WOW air, hefðu haft áhrif á ákvarðanatöku Kristjáns í viðskiptum hans.

„Skúli valinn viðskiptamaður ársins,“ sagði meðal annars sem dæmi í fyrirsögn á mbl.is 28. desember 2016 og „Net í flugvélum bæði dýrt og þungt,“ sagði í fyrirsögn á sama miðli 12. janúar 2017, í sama mánuði og Kristján ákvað að taka stöðu með lækkandi hlutabréfaverði í Icelandair Group.

Reimar segir að fréttir af Icelandair, sem hafi margar verið neikvæðar á þessum tíma, sýni að Kristján hafi haft fulla ástæðu til þess að telja að slæmt skeið væri fram undan hjá Icelandair, sem sendi svo frá sér afkomuviðvörun 1. febrúar 2017.

Ekki hægt að tala um innherjaupplýsingar

Þá lagði verjandinn áherslu á að ekki hefði verið sýnt fram á í málinu að Kjartan Jónsson hefði búið yfir og látið Kristjáni í té það sem kalla mætti innherjaupplýsingar samkvæmt skilningi laganna. Til þess hafi þær upplýsingar, sem Kjartan hafði undir höndum í starfi sínu hjá Icelandair, ekki verið nægilega nákvæmar og nægjanlega tilgreinanlegar.

Hann sagði ákæruvaldið vera að biðja dómstóla um að „ganga einu skrefi lengra“ en áður hefði verið gert í málum er lúta að innherjaupplýsingum og að það hefði varhugavert fordæmisgildi. Sakfelling í þessu máli myndi þýða að stjórnendur og þeir sem skráðir eru innherjar í fyrirtækjum gætu ekki lengur tjáð sig um rekstur fyrirtækjanna sem þeir starfa hjá með almennum hætti, með því að fara til dæmis í blaðaviðtöl og ræða um að það séu „bjartar horfur“ hjá einhverju tilteknu fyrirtæki.

Upptökukrafa hærri en ávinningur

Reimar krefst þess að Kristján Georg verði sýknaður af ákærunni, en hann sagði jafnframt að upptökukröfur í málinu væru hærri en ávinningur meintra brota og að það væri óforsvaranlegt.

Upptökukröfurnar nema ávinningi af viðskiptunum sem ákært er fyrir, fyrir skatt, en Reimar sagði ekki hægt að krefjast upptöku fjármuna sem hafi aldrei verið afhentir þeim sem krafan beinist að.

Fer hann fram á að ef fallist verði á upptökukröfu ákæruvaldsins verði einungis horft til þeirra fjárhæða sem ákærðu fengu í sinn hlut, eftir að skattar og þóknun milligönguaðila höfðu verið dregin frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert