Gerir alvarlegar athugasemdir

Hafliði Breiðfjörð framkvæmdastjóri fotbolta.net.
Hafliði Breiðfjörð framkvæmdastjóri fotbolta.net. mbl.is/Eggert

Við gerum alvarlegar athugasemdir við að samkeppnisstaða fjölmiðla verður gríðarlega skert verði lögin sett samkvæmt lokadrögum.“ Þetta kemur fram í umsögn Hafliða Breiðfjörð, framkvæmdastjóra fotbolta.net, vegna draga að frum­varpi til laga um breyt­ingu á lög­um um fjöl­miðla, sem varðar rík­is­stuðning við einka­rekna fjöl­miðla á Íslandi.

Hafliði bendir á að hans miðill, fotbolti.net, sé í samkeppni við íþróttasíður mbl.is, visis.is, dv/433.is og Fréttablaðsins. 

Ef ég skil drögin rétt fá allir þessir miðlar endurgreiðsluna. Fótbolti.net mun hins vegar ekki fá endurgreiðsluna verandi einungis íþróttamiðill. Samkeppnisstaða okkar verður verulega skekkt,“ skrifar Hafliði.

Hann bætir því við að samkeppni fotbolta.net um starfsfólk verði nánast vonlaus, verði frumvarpið að lögum. Þá þurfi miðillinn að leggja fram 33% meiri pening til að greiða starfsmanni sömu laun og samkeppnisaðilar sem fá 25% endurgreiðslu.

Þetta gæti gert út um starfsemi fjölmiðils sem hefur verið rekinn í 17 ár og alltaf greitt alla reikninga og gjöld á réttum tíma,“ skrifar Hafliði og hvetur hann ráðamenn til að gæta að því að vernda alla fjölmiðla með setningu laganna en ekki gera rekstur ákveðinna fjölmiðla erfiðari.

Alls hafa sex umsagnir borist í samráðsgáttina en umsagnarfrestur rennur út á morgun. Hægt er að skoða allar umsagnir hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert