Einungis tvær umsagnir borist

Tvær umsagnir hafa borist í samráðsgátt stjórnvalda vegna frumvarpsdraga um …
Tvær umsagnir hafa borist í samráðsgátt stjórnvalda vegna frumvarpsdraga um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Umsagnarfrestur rennur út á morgun.

Einungis tvær umsagnir hafa borist í samráðsgátt stjórnvalda vegna draga að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, sem varðar ríkisstuðning við einkarekna fjölmiðla á Íslandi. Umsagnarfresturinn rennur út á morgun.

Fyrri umsögnin barst frá Sigurði Ægissyni, sem heldur úti staðbundnum fréttamiðli á Siglufirði, þar sem hann er allt í senn, ritstjóri, blaðamaður og ljósmyndari. Hann segir að honum þyki sem minnstu einkareknu fjölmiðlarnir séu „ekki inni í þessu væntanlega frumvarpi“ og setur helst út á það skilyrði að frétt þurfi að birtast á hverjum degi.

Hann segir að hann birti allt upp í sjö fréttir á dag á sínum miðli, en að suma daga sé „ekkert að frétta“ og því ekkert sett í loftið. Einnig spyr hann, hvernig hann geti tekið sér sumarfrí, sem eini starfsmaður miðilsins ef kvöðin sé sú að daglega þurfi að birtast frétt.

Síðari umsögnin kom frá Ólafi Haukssyni, fyrrverandi blaðamanni og nú eiganda og framkvæmdastjóra almannatengslafyrirtækis. Hann setur út á það skilyrði að þrír starfsmenn þurfi að starfa í fullu starfi við öflun og miðlun efnis hjá landsdekkandi fjölmiðlum, sem sett er að danskri fyrirmynd, samkvæmt greinargerð með frumvarpsdrögunum.

Ólafur nefnir að miðlar eins og Túristi og eirikurjonsson.is, sem byggjast á vinnu eins manns og virðast uppfylla öll önnur skilyrði til endurgreiðslu á ritstjórnarkostnaði, séu með þessu útilokaðir frá stuðningi ríkisins. Hann nefnir að í Danmörku búi sautjánfalt fleiri en á Íslandi og því þurfi ekki að koma á óvart að Danir setji skilyrði um lágmarksmannskap á ritstjórnum, en segir óraunsætt að færa þessi skilyrði að óathuguðu máli á íslenskan fjölmiðlamarkað.

Einnig setur Ólafur út á það að laun og verktakagreiðslur fjölmiðla verði eingöngu talinn endurgreiðsluhæfur kostnaður, séu þau sannanlega skattlögð hérlendis. Hann bendir á að margir fjölmiðlar kaupi efni frá fólki sem búsett er erlendis, bæði um íslensk og erlend málefni og að netið geri fjölmiðlafólki kleift að búa erlendis þó að það starfi hjá íslenskum fjölmiðli.

Heildarupphæðin rýr

„Fráleitt er að krefjast þess að sú lýðræðislega umræða sem stuðningi ríkissjóðs er ætlað að efla eigi að takmarkast við það að skattar af útgjöldunum séu greiddir hér á landi,“ skrifar Ólafur, sem annars fagnar því að styrkja eigi einkarekna fjölmiðla, en þykir að stuðningurinn mætti vera meiri.

„Heildarupphæðin er samt rýr, einn tíundi hluti þess sem ríkissjóður innheimtir í þágu Ríkisútvarpsins og einn tíundi þess sem ríkissjóður lagði í jarðgöng undir Húsavíkurhöfða í þágu iðnfyrirtækis. Eftir sem áður hefur Rúv yfirburðastöðu með framlögum úr ríkissjóði,“ skrifar Ólafur.

Sem áður segir rennur umsagnarfresturinn í samráðsgáttinni út á morgun og því er enn tækifæri fyrir þá sem vilja koma sinni skoðun á þessum frumvarpsdrögum á framfæri við stjórnvöld að gera það.

mbl.is