Harðorður í garð „kjarapakkans“

Dagur sagði tillögur Sjálfstæðisflokksins koma þeim tekjuhæstu mun betur en …
Dagur sagði tillögur Sjálfstæðisflokksins koma þeim tekjuhæstu mun betur en þeim sem erfitt eiga með að ná endum saman. mbl.is/​Hari

Tillaga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins um kjarapakka Reykjavíkurborgar var felld á borgarstjórnarfundi nú síðdegis, en tillögunum var ætlað að verða innlegg borgarinnar í yfirstandandi kjaraviðræður.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var harðorður í ræðum sínum í umræðum um tillögur Sjálfstæðisflokksins, sem stóðu yfir í á þriðju klukkustund. Sagði hann borgina hafa komið til móts við íbúa, sérstaklega fjölskyldufólk, með ýmsum aðgerðum, svo sem lækkun leikskólagjalda og hækkun húsaleigubóta, og að flestar aðgerðirnar hafi átt eitt sameiginlegt: að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið á móti þeim.

Þá sagði Dagur tillögur Sjálfstæðisflokksins koma þeim tekjuhæstu mun betur en þeim sem erfitt eiga með að ná endum saman. Þær væru ótrúverðugar og stæðust enga skoðun.

Flokkurinn hafi tekið sér stöðu hins óábyrga afneitunarsinna í málefnum Orkuveitunnar á sínum tíma, þegar björgunaraðgerða var þörf til að rétta reksturinn við í kjölfar hrunsins, „og ætli núna, á einhvern lýðskrumshátt, að slá því fram að það sé ekkert mál að lækka orkugjöld“.

Tillögurnar voru lagðar fram í fjórum liðum og lagði borgarfulltrúi Miðflokksins til að kosið yrði um þær hverja fyrir sig. Var sú tillaga samþykkt, en allar voru tillögurnar felldar með 12 og 13 atkvæðum á móti.

„Nú standa yfir mjög erfiðar kjaradeilur á vinnumarkaði. Þess vegna tel ég það mikil vonbrigði að meirihlutinn sjái sér ekki fært að samþykkja tillöguna, sem lýtur að lækkun launaskatts, lækkun gjalda á heimilin, hagkvæmu húsnæði og að endingu gjöldum sem borgin leggur á húsbyggjendur. Fyrrnefndar aðgerðir myndu skila miklu fyrir tugþúsundir borgarbúa,“ segir Eyþór Arnalds.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert