Bætt innkaup fjármagni lækkun útsvars

Eyþór Arnalds, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, segir vera svigrúm til lækkunar …
Eyþór Arnalds, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, segir vera svigrúm til lækkunar útsvars í Reykjavík þar sem útsvarið sé nú hæst allra sveitarfélaga. mbl.is/Eggert

Sérstaða borgarinnar býður upp á lausnir í kjaraviðræðum að mati Eyþórs Laxdal Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Flokkurinn mun leggja fram tillögu í fjórum liðum á borgarstjórnarfundi á morgun sem innlegg borgarinnar í yfirstandandi kjaraviðræður.

Sam­kvæmt til­lög­un­um vill borg­ar­stjórn­ar­flokk­ur­inn að út­svars­pró­senta í Reykja­vík verði lækkuð úr 14,52% niður í 14% á næsta ári. Með breytingunni færi útsvarsprósentan úr því að vera sú hæsta í fjórða hæsta yfir öll sveitarfélög á landinu.

Kostnaður við útsvarslækkun 1,9 milljarðar

„Þegar stærsta sveitarfélagið er með hæsta útsvarið ætti að vera svigrúm til lækkunar,“ segir Eyþór í samtali við mbl.is. Áætlaður kostnaður borgarinnar á þessu ári svo að tillagan verði að veruleika á næsta ári er 1,9 milljarðar. Aðgerðin verður að öðru leyti fjármögnuð með bættum innkaupum borgarinnar. „Bara fjárfestingarnar á ári eru 20 milljarðar og við höfum séð að það hefur ekki verið mikið aðhald í mörgum verkefnum. Það er hægt að gera mikið í innkaupum borgarinnar, um það eru flestir sammála, og við teljum að það sé besta leiðin.“

Önnur tillagan felur í sér að lækka rekstrargjöld heimilanna, sem nemi um 36 þúsund krónum á heimili í borginni að jafnaði á ársgrundvelli. Lagt er til að fjármagna aðgerðina með breyttum arðgreiðsluáformum Orkuveitu Reykjavíkur, með því að falla frá helmingi arðgreiðslna Orkuveitunnar.

Til viðbót­ar er lagt til að borgin tryggi hagstætt húsnæði og að samið verði við ríkið um kaup á Keldna­landi og á svæðinu verði farið í taf­ar­lausa upp­bygg­ingu með áherslu á hag­kvæmt hús­næði. Þá verði fallið frá sér­stök­um innviðagjöld­um og bygg­ing­ar­rétt­ar­gjöld­um stillt í hóf.

Eyþór telur að borgin hafi fjárfest í lóðum á of dýrum svæðum síðustu ár og því þurfi að breyta. „Borgin þarf fyrst og fremst að hafa lóðir á hagstæðu verði. Sú áhersla sem hefur verið, að byggja upp á dýrum þéttingasvæðum, leiðir til þess að það verða til dýrar íbúðir, en það vantar líka hagstæðar íbúðir.“

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins tilkynnti kjarapakka í fjórum liðum á fundi í …
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins tilkynnti kjarapakka í fjórum liðum á fundi í ráðhúsinu í morgun. Tillögurnar verða lagðar fyrir borgarstjórn á morgun. mbl.is/Eggert

Sum sveitarfélög ættu að koma að kjaraviðræðum

Aðspurður hvort sveitarfélögin ættu almennt að koma með innlegg í kjaraviðræður segir Eyþór: „Sum geta það, önnur ekki. En það skiptir langmestu máli hvað borgin gerir varðandi það að hafa ekki útsvarið hærra heldur en hinir, varðandi það að vera ekki með skort á byggingalandi og að Orkuveitan sé hófleg.“

Tillögurnar verða, sem fyrr segir, lagðar fram á fundi borgarstjórnar á morgun. Eyþór er bjartsýnn á að sátt náist um tillögurnar, að minnsta kosti hluta þeirra. „Þetta eru allt jákvæðar tillögur. Nú hefur borgarstjóri hafnað því að lækka útsvar en hann hefur tækifæri á að styðja hina þættina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert