„Ég er hér til að styðja mitt fólk“

Alise Lavrova starfaði í morgunmatnum á Radisson 1919.
Alise Lavrova starfaði í morgunmatnum á Radisson 1919. mbl.is/Eggert

„Ég starfaði á Radisson 1919 þangað til í lok febrúar þegar samningum okkar var rift. Við í morgunverðarteyminu skrifuðum ekki undir þá nýju því þeir voru miklu verri,“ segir Alise Lavrova, sem stödd er á verkfallsvöku Eflingar í Gamla bíói.

Alise kveðst mjög spennt fyrir verkfallinu, en þess má geta að fjallað var um starfsumhverfi á Radisson 1919 í dagblaði Stundarinnar í dag, þar sem rætt er við sex starfsmenn og fyrrverandi starfsmenn hótelsins, sem segja farir sínar ekki sléttar.

„Öll deildin mín er hætt, en ég var trúnaðarmaður starfsfólks á hótelinu og vildi hjálpa þeim því þau eru ekki komin með nýjan trúnaðarmann í minn stað,“ segir Alise. Henni finnst hún bera ábyrgð gagnvart fyrrverandi samstarfsfólki sínu, meðal þeirra sé mikil samheldni og þau séu raunar eins og fjölskylda.

Alise ætlar að vera í Gamla bíói í allan dag. „Fyrst og fremst til að styðja mitt fólk og svo er auðvitað alþjóðlegur baráttudagur kvenna.“

Blaðamaður mbl.is ræddi einnig við Valgerði Árnadóttur, félagsfulltrúa Eflingar, um dagskrána í Gamla bíói. Hún segir mætinguna framar vonum.

Frá samstöðufundi á Lækjartorgi í hádeginu.
Frá samstöðufundi á Lækjartorgi í hádeginu. mbl.is/Eggert

„Núna eftir ræðu Sólveigar Önnu förum við í vinnuhópa þar sem starfsfólk Eflingar ræðir við þau sem eru í verkfalli um það sem er í gangi, um kröfugerðina, réttindi þeirra og verkalýðsbaráttuna almennt. Við viljum heyra hvað liggur þeim á hjarta og hvað við getum gert fyrir þau,“ segir Valgerður.

„Svo verður ýmislegt um að vera, ræður og tónlistaratriði. Fólk getur komið og farið eins og það vill og svo endum við í kröfugöngu frá Gamla bíói klukkan 16. Þar eru allir velkomnir til að styðja konur í verkfalli, og konur almennt í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna.“

Fjölmenni er í Gamla bíói.
Fjölmenni er í Gamla bíói. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert