„Við eigum sama rétt og ríkir karlmenn“

Frá ávarpi Sólveigar Önnu í Gamla bíó í dag.
Frá ávarpi Sólveigar Önnu í Gamla bíó í dag. mbl.is/Eggert

„Í dag leggja láglaunakonur niður störf, neita að vinna í einn dag, setja hendur í vasa og hafa þannig meira vald en allir yfirmenn þeirra til samans,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir og uppskar mikil fagnaðarlæti þar sem hún ávarpaði hótelstarfsfólk sem saman er komið í Gamla bíó á verkfallsvöku Eflingar.

„Við láglaunakonur á Íslandi höfum verið látnar vinna árum og áratugum saman fyrir laun sem duga aldrei til að láta enda ná saman, og fyrir laun sem eru ekki nóg til að lifa í þessari mjög dýru höfuðborg Íslands, ekki nóg til að borga leigu, ekki nóg til að eiga fyrir mat og ekki nóg til að við getum eytt nægum tíma með börnunum okkar. Ekki nóg fyrir okkur til að lifa sem frjálsar manneskjur.“

Sólveig Anna mætti galvösk í Gamla bíó í morgun.
Sólveig Anna mætti galvösk í Gamla bíó í morgun. mbl.is/Eggert

„Þessi dagur snýst um það, við eigum sama rétt og ríkir karlmenn til þess að lifa í þessu samfélagi sem frjálsar manneskjur,“ sagði Sólveig Anna og uppskar enn á ný mikil fagnaðarlæti. Ljóst er að mikill hugur er í fólki.

„Ég er mjög tilfinningarík, ég er mjög ánægð. Ég sagði við fjölmiðla í gær að ég væri mjög ánægð og ríkustu menn Íslands komust í mikið uppnám. Maður sem fær 4 milljónir á mánuði gagnrýndi mig og mína ánægju með að við getum átt þennan dag. Þess vegna langar mig að spyrja ykkur núna: Eruð þið ánægð með að við leggjum niður störf í dag?“

Kvennakúgun að mega ekki fagna baráttunni

Miðað við viðbrögð fólks er Sólveig Anna ekki sú eina sem er spennt vegna verkfallsins. Blaðamaður mbl.is tók Sólveigu Önnu tali eftir ræðuna. Hún var harðorð í garð þeirra sem gagnrýnt hafa gleði hennar vegna verkfallsins.

„Í alvöru talað, af hverju ættum við ekki að vera glaðar? Af hverju ætti okkar barátta að vera undanskilin því að vera glöð barátta? Það er mikil kvennakúgun fólgin í því að segja að þessir og hinir megi gleðjast, en að láglaunakonur þurfi að vera harmi lostnar yfir því að heyja sína baráttu. Ég hafna þessu alfarið.“

„Ég held að stemmningin hér sýni það sem ég sagði í gær. Ég er glöð persónulega, en ég endurspegla líka þær tilfinningar og þau skilaboð sem ég hef sannarlega fengið frá félagsmönnum,“ sagði Sólveig Anna að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert