Óttast brottfall í stétt hjúkrunarfræðinga

Flestir hjúkrunarfræðingar eru með lausa kjarasamninga síðan 1. apríl.
Flestir hjúkrunarfræðingar eru með lausa kjarasamninga síðan 1. apríl.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur þungar áhyggjur af því hversu margir hjúkrunarfræðingar hverfa til annarra starfa vegan aukins álags. 

Þetta kemur fram í ályktun sem félagið sendi frá sér eftir aðalfund félagsins í kvöld. Þar segir að þrír af hverjum fimm hjúkrunarfræðingum hafi hugsað alvarlega um að segja starfi sínu lausu samkvæmt viðhorfskönnun sem gerð var síðasta haust. 

Félagið skorar á stjórnvöld að stórbæta starfsumhverfið með því að tryggja mönnunarviðmið, bæta vinnuaðstöðu og auka öryggi. 

Ályktunin:  

„Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) skorar á stjórnvöld að endurmeta virði starfa hjúkrunarfræðinga og bæta kjör þeirra til að fjölga hjúkrunarfræðingum í heilbrigðiskerfinu. Þetta kemur fram í áskorun sem samþykkt var á aðalfundi Fíh í dag, fimmtudaginn 16. maí 2024.

 Endurmeta þarf virði starfa hjúkrunarfræðinga sem kvennastéttar og leiðrétta kjör til samræmis við aðra háskólamenntaða sérfræðinga. Yfirvöld þurfa að vinna markvissar að því að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á störfum þar sem konur eru í meirihluta en 96% hjúkrunarfræðinga á Íslandi eru konur. Bregðast þarf án tafar við skorti á hjúkrunarfræðingum og þar má ekki líta fram hjá launaþættinum. 

Langstærstur hópur hjúkrunarfræðinga hefur verið með lausa kjarasamninga frá 1. apríl á þessu ári. Við gerð nýrra kjarasamninga er nauðsynlegt að horfa til niðurstöðu gerðardóms frá 2020 um að stéttin sé vanmetin til launa miðað við ábyrgð í starfi. Til þess að hjúkrunarfræðingar sjái sér hag í að starfa við sitt fag þurfa laun þeirra að vera samkeppnishæf. 

Einnig var skorað á stjórnvöld að stórbæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga. Fíh hefur þungar áhyggjur af þeim hópi hjúkrunarfræðinga sem leita til annarra starfa vegna aukins álags. Í viðhorfskönnun frá september 2023 hafa 3 af hverjum 5 hjúkrunarfræðingum hugsað alvarlega um að hætta starfi á næstu 2 árum og nefna flest starfstengt álag.  

 Félagið skorar á stjórnvöld að gera umbætur á starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga með því að tryggja mönnunarviðmið, bæta vinnuaðstöðu og auka öryggi. Bregðist stjórnvöld ekki við þessu ákalli hjúkrunarfræðinga er hætt við að öryggi sjúklinga, hjúkrunarfræðinga og annars heilbrigðisstarfsfólks verði stefnt í hættu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert