Frambjóðendur svara: Halla Hrund Logadóttir

Halla Hrund Logadóttir.
Halla Hrund Logadóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halla Hrund Logadóttir, fram­bjóðandi til embætt­is for­seta Íslands, telur meðal annars reynslu sína og þekkingu af auðlindamálum hér heima og erlendis vera gríðarlega mikilvæga fyrir embætti forseta Íslands. Þá telur hún það vera kost að forseti Íslands sé óháður og komi ekki úr stjórnmálastarfi. 

Það mik­il­væg­asta við embætti for­seta Íslands að mati Höllu Hrundar er að forsetinn sé öflugur liðsmaður þjóðarinnar allrar. Hún segir að forsetinn þurfi að tala fyrir hagsmunum almennings og vera öflugur talsmaður þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. 

Morg­un­blaðið gef­ur öll­um fram­bjóðend­um tæki­færi til að svara sjö spurn­ing­um og birt­ir svör hvers fyr­ir sig á mbl.is. Svör­um fram­bjóðend­anna verður síðan safnað og þau birt í Morg­un­blaðinu svo les­end­ur geti hag­an­lega borið þau sam­an.

Íslend­ing­ar ganga að kjör­borðinu 1. júní og kjósa sér sjö­unda for­seta lýðveld­is­ins. Morg­un­blaðið og mbl.is fylgj­ast vel með og færa ykk­ur helstu frétt­ir af kosn­inga­bar­átt­unni.

Hér á eft­ir fara svör Höllu Hrundar við spurn­ing­um mbl.is og Morg­un­blaðsins:

Halla Hrund er ein þeirra tólf sem bjóða sig fram …
Halla Hrund er ein þeirra tólf sem bjóða sig fram í embætti for­seta Íslands í kom­andi for­seta­kosn­ing­um. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað finnst þér mik­il­væg­ast við embætti for­seta Íslands?

„Forsetaembættið eigum við öll saman og forsetinn á að vera tryggur þjónn þjóðarinnar, í blíðu og stríðu. Mikilvægasta hlutverk forseta Íslands er því að vera öflugur liðsmaður þjóðarinnar allrar. Forsetinn hvetur samlanda sína til dáða, er til staðar og fær aðra til að vaxa og njóta sín. Hann á að tengja ólíka hópa samfélagsins saman og ljá þeim rödd sem minna mega sín. Forseti á einnig að fá okkur til að leggja okkur fram fyrir samfélagið okkar og horfa bjartsýn fram á veginn, en vera til staðar þegar á móti blæs. Forseti þarf að tala fyrir hagsmunum almennings og vera öflugur talsmaður þjóðarinnar á alþjóðavettvangi.“

Hvað hef­ur þú helst fram að færa til embætt­is­ins um­fram aðra fram­bjóðend­ur?

„Reynsla mín og þekking af auðlindamálum hér heima og erlendis er gríðarlega mikilvæg fyrir embætti forseta Íslands. Ég veit hvaða verðmæti við eigum í auðlindum okkar og náttúru, ég þekki hversu einstakar þær eru á heimsvísu og hvers vegna það skiptir máli að nýta og njóta þeirra af alúð fyrir komandi kynslóðir. Þessi þekking á orku,- auðlinda og loftslagsmálum nýtist vel í alþjóðlegu samhengi enda um lykilmálaflokka að ræða. Reynsla mín af því að byggja upp alþjóðleg verkefni frá grunni er einnig dýrmætt veganesti í embætti forseta. Vegna hennar hef ég skýra sýn á það hvernig forseti Íslands getur stutt við fjölbreytt tækifæri landsins, hvort sem það er í verkefnum tengdum nýsköpun, menningu, listum, íþróttum eða með hvatningu til allra landsmanna. Þá tel ég það kost að forseti Íslands sé óháður og komi ekki úr stjórnmálastarfi. Hins vegar þekki ég stjórnkerfi landsins vel, ekki hvað síst vegna starfs míns sem orkumálastjóri. Þar hef ég sýnt að ég vinn af heilindum með almannahagsmuni að leiðarljósi. Þá afstöðu tel ég vera mikilvægasta áttavita forseta Íslands.“

Á maki for­seta að hafa form­lega, launaða stöðu?

„Hlutverk maka forseta er hvergi formlega skilgreint og ég tel ekki ástæðu til að breyta því. Aftur á móti getur maki forseta verið öflugur liðsstyrkur fyrir embættið, eins og dæmin hafa sýnt, og þekking og reynsla viðkomandi getur nýst í þágu þjóðarinnar. Eiginmaður minn Kristján Freyr, kemur til að mynda úr nýsköpunargeiranum. Hann þekkir vel til gervigreindar, sem mun hafa mikil áhrif á heiminn allan á komandi árum, meðal annars á Ísland.“

Á for­seti að vera virk­ur þátt­tak­andi í þjóðmá­laum­ræðu?

„Forseti á ekki að taka þátt í pólitískum deilum eða dægurþrasi. Forsetinn á að hlusta á þjóðina og nýta stöðu sína, áhrif og rödd til að vekja athygli á brýnum málum í samfélaginu og stuðla að uppbyggilegri umræðu með langtímasýn og hagsmuni almennings að leiðarljósi. Forseti Íslands á að vera forseti allra landsmanna.“

Hvað vægi þyngst í ákvörðun um að synja lög­um staðfest­ing­ar: rök stjórn­ar­and­stöðu, mót­mæli, ráðgjöf eða eig­in dómgreind?

„Það sem vegur þyngst þegar kemur að málskotsréttinum er eðli máls. Ég tel að forseti Íslands eigi ekki að beita þessari valdheimild nema í afar sérstökum aðstæðum ef langtímahagsmunir þjóðarinnar eru undir. Við ákvörðun um að synja lögum staðfestingar ætti forsetinn að íhuga öll rök og sjónarmið vandlega. Forsetinn ætti að hlusta á rödd þjóðarinnar, viða að sér upplýsingum um allar hliðar málsins og beita svo eigin dómgreind. Allt eru þetta grundvallaratriði í ákvörðun um að synja lögum staðfestingar.“

Hver eru brýn­ustu viðfangs­efni Íslend­inga nú og hvað hef­ur for­seti til þeirra mála að leggja?

„Brýnustu viðfangsefni Íslendinga í mínum huga eru að þétta raðirnar, efla gleði og samkennd okkar á milli og þar með styrk okkar til að sækja fram. Ég finn á ferðum mínum um landið að ákveðnir hópar í samfélaginu upplifa sig afskipta, eru einangraðir og margir glíma við einmanaleika, kvíða og þunglyndi. Samfélagið okkar verður líka sífellt fjölbreyttara. Þess vegna er mikilvægt að hlúa að tungu okkar og menningu og gera öllum kleift að leggja sitt af mörkum. Sem forseti mun ég nýta reynslu mín af því að fá ólíka hópa til að vinna saman og leitast við að horfa á það hvernig við getum sótt fram um allt land fyrir framtíðina. Ísland er í einstakri stöðu, ríkt af auðlindum náttúru og hugvits, og við höfum alla burði til þess að ná lengra saman. Í þessu samhengi skiptir máli að forseti sé málsvari allra í samfélaginu og tali fyrir sjálfbærni og almannahagsmunum í hvívetna. Það skiptir líka máli að forseti hlúi að mennskunni á tímum örrar tækniþróunar og gervigreindar og sé vakandi yfir þeim áskorunum og tækifærum sem sú þróun getur fært okkur.“

Hver er hæfi­leg­ur tími í embætti fyr­ir for­seta?

„Ég tel þrjú til fjögur kjörtímabil vera hæfilegan tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert