Frambjóðendur svara: Halla Tómasdóttir

Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi.
Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halla Tómasdóttir, fram­bjóðandi til embætt­is for­seta Íslands, segist hafa áratuga reynslu í því að leiða saman ólíka hópa til samtals og samstarfs. Hún hlusti vel, beri virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum og sé þjálfuð í að finna sameiginlegar lausnir. 

Það mik­il­væg­asta við embætti for­seta Íslands að mati Höllu er að forseti tali máli þjóðarinnar og setji hagsmuni Íslands og Íslendinga á oddinn.

Morg­un­blaðið gef­ur öll­um fram­bjóðend­um tæki­færi til að svara sjö spurn­ing­um og birt­ir svör hvers fyr­ir sig á mbl.is. Svör­um fram­bjóðend­anna verður síðan safnað og þau birt í Morg­un­blaðinu svo les­end­ur geti hag­an­lega borið þau sam­an.

Íslend­ing­ar ganga að kjör­borðinu 1. júní og kjósa sér sjö­unda for­seta lýðveld­is­ins. Morg­un­blaðið og mbl.is fylgj­ast vel með og færa ykk­ur helstu frétt­ir af kosn­inga­bar­átt­unni.

Hér á eft­ir fara svör Höllu við spurn­ing­um mbl.is og Morg­un­blaðsins:

Halla er ein þeirra tólf sem bjóða sig fram í …
Halla er ein þeirra tólf sem bjóða sig fram í embætti for­seta Íslands í kom­andi for­seta­kosn­ing­um. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvað finnst þér mik­il­væg­ast við embætti for­seta Íslands?

„Að forseti tali máli þjóðarinnar og setji hagsmuni Íslands og Íslendinga á oddinn. Styðji við og styrki Íslendinga til góðraverka á öllum sviðum, um allt land og erlendis. Tali í okkur kjark þegar á móti blæs og hvetji okkur til að vera fyrirmynd og jákvætt hreyfiafl fyrir sjálfbærni, jafnrétti og friði. Horfi til lengri tíma og hugi að réttlæti og jafnrétti bæði yngri og eldri kynslóða.“

Hvað hef­ur þú helst fram að færa til embætt­is­ins um­fram aðra fram­bjóðend­ur?

„Ég hef áratuga reynslu af því að leiða saman ólíka hópa til samtals og samstarfs í þágu betra samfélags. Ég hlusta vel, ber virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum og er þjálfuð í að finna sameiginlegar lausnir. Ég er svo lánsöm að eiga góða vini bæði hér heima og víða erlendis, sem veita mér innblástur og styrk.“

Á maki for­seta að hafa form­lega, launaða stöðu?

„Þetta þyrfti að ræða, því líklegt er að maki forseta gegni eigin starfi þegar forseti er kjörinn. Síðan er búist við því að hann/hún taki þátt í mörgum störfum forsetans, fari í opinberar heimsóknir, taki á móti gestum, sé verndari ýmissa verkefna o.s.frv. Að hvaða marki sú vinna á að vera formleg og greidd hefur ekki verið rætt og ég hef satt að segja ekki myndað mér skoðun á því. Maðurinn minn hefur áhuga á lýðheilsu, heilbrigðu líferni og nýsköpun, ekki síst á sviði matarmenningar. Hann mun leggja þeim málefnum lið, hér eftir sem hingað til, auk þess að styðja mig af fremsta megni í mínu starfi.“

Á for­seti að vera virk­ur þátt­tak­andi í þjóðmá­laum­ræðu?

„Forseti á að tala fyrir og um grunngildi þjóðarinnar, minna okkur á sögu okkar og uppruna og mikilvægi þess að við búum hér í sátt og samlyndi á grunni þeirra. Forseti á einnig að horfa til lengri tíma og þeirra hagsmuna er varða næstu kynslóðir. En hann á ekki að flagga persónulegum skoðunum sínum um hin og þessi þjóðmál.“

Hvað vægi þyngst í ákvörðun um að synja lög­um staðfest­ing­ar: rök stjórn­ar­and­stöðu, mót­mæli, ráðgjöf eða eig­in dómgreind?

„Afstaða þjóðarinnar og hvort lögin virðist ganga gegn grunngildum hennar og hagsmunum næstu kynslóða. Til að leggja mat á það myndi ég hlusta vel á ólíka hópa og kynslóðir, leita til ráðgjafa og nota eigin dómgreind. Munum að málskotsrétturinn fjallar um að leggja lög í dóm þjóðarinnar – ekki forsetans.“

Hver eru brýn­ustu viðfangs­efni Íslend­inga nú og hvað hef­ur for­seti til þeirra mála að leggja?

„Ótal áskoranir blasa við okkur, bæði innanlands og milli þjóða. Ég held að forseti geti hjálpað til við að skýra grunngildi þjóðarinnar, þannig að við áttum okkur á því hver við viljum vera og hvert við viljum fara. Þjóðin þarf að setja sér sinn áttavita. Forsetinn getur hvatt til að það sé gert – svipað því og gert var með Þjóðfundinum 2009. Það vita allir að ef maður hefur enga skoðun á því hvert maður vill fara, þá endar maður bara einhvers staðar. Forseti setur þjóð ekki gildi, en hann getur stuðlað að því að hún geri það sjálf og eignist þannig áttavita. Allir sem leggja í langferð þurfa áttavita.

Þannig getum við styrkt okkar samfélagssáttmála og þá mun okkur takast betur að vinna úr þeim fjölmörgu og flóknu viðfangsefnum sem blasa við. Þannig tryggjum við best vellíðan fólks, umhverfis og samfélags.“

Hver er hæfi­leg­ur tími í embætti fyr­ir for­seta?

„Ég tel að 2-3 kjörtímabil sé hæfilegur tími í embætti forseta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert