„Eitt lítið hænuskref af mörgum“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Hækkun lægstu launa og stytting vinnuvikunnar er það jákvæðasta við nýju kjarasamninganna, að mati Loga Más Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar. Hann gagnrýnir að vegið sé að sjálfstæði Seðlabanka Íslands og segir að ekki sé tekið á „eignaójöfnuðinum“ í samfélaginu.

Mál sem Samfylkingin hafði lagt fram

„Ég fagna því að kjarasamningar hafi náðst og hrósa verkalýðshreyfingunni og atvinnulífinu fyrir að hafa háð öfluga baráttu og hugsað í lausnum og ekki síst fyrir að hafa dregið ríkisstjórnina loks að borðinu og láta hana samþykkja mikið af tillögum sem m.a. Samfylkingin hefur borið fram hér á þingi og ríkisstjórnin jafnharðan fellt,“ segir Logi Már og nefnir aukin stofnframlög, hækkun barnabóta og lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði sem dæmi.

Hann segir eingöngu um fyrsta skref að ræða og að engin grundvallarbreyting hafi orðið á samfélagsgerðinni. Enn sitji stórir hópar eftir og berjast þurfi fyrir réttindum þeirra.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ræðir við Drífu Snædal, forseta …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ræðir við Drífu Snædal, forseta ASÍ, við kynningu lífskjarasamninganna í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í gærkvöldi. mbl.is/Hari

Þarf að breyta fjármálaáætlun

Logi Már vonast til að kjarasamningarnir muni greiða fyrir samningum á opinberum markaði en telur að vegna styttingu vinnuviku þurfi að auka mönnun í mörgum stofnunum sveitarfélaga. Því verði strax að ráðast í breytingu á fjármálaáætlun sem miðar að því að þurrka út skerðingu á jöfnunarsjóðsgjöldum og koma til móts við sveitarfélög sem sé þröngur stakkur búinn.

Formaðurinn segir afar sérstakt að Seðlabankinn skuli settur í þannig stöðu að vegið sé að sjálfstæði hans. „Þó að við höfum öll væntingar um vaxtalækkun er það ákvörðun Seðlabankans og þarf að vera, vegna þess að hann fylgir verðbólgumarkmiðum og ýmsu öðru. Jafnvel þó að við náum lækkun á vöxtum verður að halda því til haga að enn munu vextir á Íslandi vera nokkrum prósentum  hærri en í löndunum í kringum okkur,“ bendir hann á og segir að ný mynt myndi gefa Íslendingum tækifæri til að búa við sömu lífskjör og hinar Norðurlandaþjóðirnar.

„Áfram verður baráttan um hægri og vinstri, íhald og framþróun og einangrun eða samvinnu.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum í gærkvöldi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum í gærkvöldi. mbl.is/​Hari

Ekki tekið á „eignaójöfnuðinum“

Logi Már kveðst ekki hafa séð útfærslu á skattatillögunum í samningunum en segir gleðilegt að lægst launaða fólkið fái 10 þúsund krónur í formi aukningu ráðstafanatekna á mánuði. Hann spyr hvort sú upphæði nái upp allan skalann og að „við sem erum með háar tekjur fáum það. Það er ótrúleg sóun á fjármunum og það hefði þurft að gera þetta þannig að þessu sé fyrst og fremst beint til lág- og millitekjuhópa.“

Hann gagnrýnir einnig að ekki sé tekið á „hinum stóra ójöfnuði í samfélagi sem er eignaójöfnuðurinn“. Ég hefði fyrirfram trúað því að VG myndi berjast fyrir breytingum á fjármagnsskatti, auðlegðarskatt og jafnvel erfðafjárskatti. Það er gleðilegt að aðilar hafi náð saman en ég minni á að þetta er eitt lítið hænuskref af mörgum í átt að fullnægjandi velferðarsamfélagi,“ segir Logi Már.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert