Segir vegið að sjálfstæði Seðlabankans

Þorsteinn Víglundsson í ræðustóli Alþingis.
Þorsteinn Víglundsson í ræðustóli Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir það gagnrýnivert að ákvarðanir Seðlabanka Íslands séu gerðar að forsendum í kjarasamningum. Fyrir vikið sé vegið að sjálfstæði bankans.

„Það er fagnaðarefni að samningar hafi náðst og ánægjulegt að samið sé til sæmilega langs tíma eins og þarna er gert,“ segir Þorsteinn og telur fyrirsjáanleika vera af hinu góða bæði fyrir rekstrarafkomu fyrirtækja og afkomu almennings.

Hann segir það eiga eftir að koma í ljós hvort samningarnir muni stuðla að verðstöðugleika eða ekki. Niðurstaðan komi þó ekki á óvart miðað við kröfugerðina sem hafi verið mjög há.

„Það er vissulega verið að gera samninga í takt við þá kröfugerð og hækkanirnar beinast fyrst og fremst að hækkun lægstu launa. Það á eftir að koma í ljós nú þegar millitekjuhóparnir eiga sjálfir eftir að semja hvort að það verði þá ríkjandi launastefna fyrir millitekjuhópinn eða ekki og hver verðlagsáhrifin af samningnum kunna að verða. Þess vegna þykir mér það gagnrýnivert að ákvarðanir Seðlabankans séu gerðar að forsendum í kjarasamningum,“ segir Þorsteinn.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, við undirritunina í gærkvöldi.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, við undirritunina í gærkvöldi. mbl.is/​Hari

Í tilkynningu sem Efling sendi frá sér í gær er minnst á ákvæði í kjarsamningnum sem snýr að Seðlabanka Íslands. Þar segir:

„Ein af forsendum samningsins er að Seðlabanki Íslands lækki stýrivexti. Samningsaðilar eru sammála um að samningurinn skapi aðstæður til þess. Lækkun vaxta mun hafa mikil áhrif á útgjöld skuldsettra heimila og einnig stuðla að lækkun leiguverðs. Í samningnum verða forsenduákvæði um uppsögn hans verði vaxtalækkanir ekki að raunveruleika.“

Þorsteinn er undrandi á þessu og segir eina af forsendum samningsins vera að Seðlabanki Íslands lækki stýrivexti. „Samningsaðilar eru sammála um að samningurinn skapi aðstæður til þess. Lækkun vaxta mun hafa mikil áhrif á útgjöld skuldsettra heimila og einnig stuðla að lækkun leiguverðs. Í samningnum verða forsenduákvæði um uppsögn hans verði vaxtalækkanir ekki að raunveruleika.“

Hann segir Seðlabankann vera sjálfstæða stofnun og að það sé leiðandi ósiður hjá íslenskum stjórnmálamönnum að sífellt gagnrýna Seðlabankann fyrir að vinna eftir þeim lögum og markmiðum sem honum hafa verið sett.

„Þarna kveður við nýjan tón hjá aðilum vinnumarkaðarins sem eru þá að segja að það kunni að vera sjálfstætt uppsagnarákvæði á kjarasamningum ef Seðlabankinn ekki lækkar vexti. Ég tel sjálfstæði Seðlabankans gríðarlega mikilvægt og mjög óeðlilegt að forsenduákvæði sem þetta sé sett inn í kjarasamning enda eiga ekki að vera forsenduákvæði í kjarasamningum um annað en það sem snýr að því sem samningaaðilar fá og eiga að fá einhverju ráðið um. Seðlabankinn verður að hafa fullt sjálfstæði til að taka sínar vaxtaákvarðanir út frá sínu meginmarkmiði sem er að viðhalda hér verðlagsstöðugleika,“ segir Þorsteinn.

mbl.is/​Hari

Hann bætir við að gangi væntingar aðila um vaxtalækkanir ekki eftir, helgist það væntanlega af því að verðbólga sé meiri en ráð hefur verið gert fyrir. Svarið við því geti varla verið að hækka laun enn frekar. „Það gefur hættulega undir fótinn með víxlhækkanir launa og verðlags eins og við þekkjum frá fyrri áratugum sem leiddi á endanum til þess að þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir á sínum tíma til þess að stöðva þær víxlhækkanir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert