Telja ákvörðun Minjastofnunar ólögmæta

Gámar sem innihalda meðal annars vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk eru að …
Gámar sem innihalda meðal annars vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk eru að mati Minjastofnunar innan friðlýsts svæðis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrirtækið Lindarvatn, sem stendur að framkvæmdum á hóteli á Landssímareitnum í miðborg Reykjavíkur, telur ákvörðun Minjastofnunar um að fyrirtækið skuli fjarlægja allt sem því tilheyrir úr Fógetagarðinum, bæði tilefnislausa og ólögmæta.

Í tilkynningu frá Lindarvatni segir að það sem Minjastofnun vilji láta fjarlægja úr Fógetagarðinum séu gámar sem innihalda aðstöðu fyrir starfsfólk og fundaraðstöðu, auk þess sem þar sé aðkoma að vinnusvæðinu fyrir efni og aðföng. Þá hefur verið komið fyrir vinnugirðingu utan um athafnasvæðið sem nær inn í Fógetagarðinn.

„Þessi búnaður hefur staðið í tæpt ár á svæðinu og er nauðsynlegur svo hægt sé að framkvæma á Landssímareitnum,“ segir í tilkynningu Lindarvatns sem ítrekar leyfi frá Reykjavíkurborg til tímabundinna afnota af borgarlandinu.

„Áður en leyfið var veitt var kannað vandlega hvort hin tímabundnu afnot myndu hafa áhrif á minjar, en svo er ekki. Samkvæmt áliti jarðtækniverkfræðings eru áhrif á minjar sem kunna að vera undir hellulögðu yfirborði garðsins engin,“ segir í tilkynningunni.

Minjastofnun fór fram á að gámar og girðingar verði fjarlægðir af svæðinu fyrir 30. apríl, en framlengdi þann frest til 7. maí.

Lindarvatn stendur að framkvæmdum á Landssímareitnum í miðborg Reykjavíkur og …
Lindarvatn stendur að framkvæmdum á Landssímareitnum í miðborg Reykjavíkur og hefur deilt við Minjastofnun um notkun svæðisins. mbl.is/Hallur Már

Búið er að rannsaka áhrif á minjar

„Minjastofnun hefur ekki heimildir að lögum til þess að fella afnotaleyfið úr gildi og rökstyður ekki í ákvörðun sinni hvort eða hvernig hún telji þessi tímabundnu afnot af borgarlandinu spilla minjum. Á svæðinu er einnig að finna mikið magn af lögnum, strengjum og rörum í jörðu frá veitu- og fjarskiptafyrirtækjum,“ segir í tilkynningu Lindarvatns.

Þá telur Lindarvatn að Minjastofnun hafi ekki heimild að lögum til að fella afnotaleyfi Reykjavíkurborgar, eiganda lóðarinnar, úr gildi. Þá brjóti ákvörðunin gegn meðalhófi þar sem engin hætta er á að minjar spillist.

„Ákvörðun Minjastofnunar brýtur auk þess gegn jafnræðisreglu, en öðrum með búnað á sama svæði hefur ekki verið gert að fjarlægja hann. Þá eru mörg fordæmi þess að öðrum hafi verið veitt tímabundin afnot af svæðinu, s.s. vegna matar- og jólamarkaða auk annarra viðburða, án þess að Minjastofnun hafi látið sig það nokkru varða,“ segir í tilkynningu Lindarvatns.

Ætla með málið lengra

Lindarvatn krefst þess að Minjastofnun afturkalli ákvörðun sína, að öðrum kosti yrði henni beint til Umboðsmanns Alþingis. Þá áskilur Lindarvatn sér rétt til að beina frekari skaðabótakröfum að Minjastofnun og mun eftir atvikum leita réttar síns fyrir dómstólum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Lindarvatn og Minjastofnun deila um framkvæmdirnar á svæðinu, en skyndifriðun Minjastofnunar á Víkurgarði vakti miklar deilur fyrir nokkrum mánuðum. Það endaði með því að fallist var á verndun Víkurgarðs og gerði Lindarvatn breytingu á hönnun byggingar sinnar í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert