Færa inngang og sleppa við friðlýsingu

Inngangur byggingarinnar verður færður og mun það duga til þess …
Inngangur byggingarinnar verður færður og mun það duga til þess að koma í veg fyrir að Landssímareiturinn verði friðaður. mbl.is/Hari

Landssímareiturinn verður ekki friðlýstur geri Lindarvatn breytingu á hönnun byggingar sinnar, segir Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns, í samtali við mbl.is. 

Í breytingunni felst að inngangur byggingarinnar mun ekki lengur snúa að Fógetagarði, heldur mun inngangur snúa að Aðalstræti níu og annar vera á suðvesturhorni hússins að Kirkjustræti.

Skyndifriðunin sem varði í sex vikur olli töfum á framkvæmdum og þar af leiðandi töluverðu raski hvað varðar afhendingu byggingarinnar. „Það er tjón sem við þurfum núna að fara að skoða og munum auðvitað sækja það af fullum þunga. Við eigum rétt til þess samkvæmt minjalögum,“ segir Jóhannes.

„Minjastofnun er með þessu að draga skyndifriðun til baka sem að óbreyttu hefði runnið út í dag. Minjastofnun er jafnframt að draga til baka friðlýsingartillöguna, sem hafði verið beint til ráðherra og þar með stendur ekki lengur til að Landssímareiturinn sem er innan okkar byggingarlóðar verði friðaður,“ útskýrir Jóhannes.

Hann segir jafnframt niðurstöðuna vera þá sem allir geta sætt sig við. „Aðalatriðið fyrir okkur er að okkar byggingaráform raskist ekki og við getum þá haldið áfram og klárað það sem stefnt var að.“

Aðspurður vildi Jóhannes ekkert tjá sig um þær viðræður sem leiddu að þessari niðurstöðu.

Byggingaráform raskist ekki

Í tilkynningu til fjölmiðla segir Lindarvatn „því fagnað að tillaga um friðlýsingu sé dregin til baka en með því er tryggt að fyrirhuguð byggingaráform raskist ekki á sama tíma og komið er til móts við sjónarmið þeirra sem vilja að sögu og menningu Víkurgarðs verði gert hærra undir höfði.“

„Þá vonast Lindarvatn til þess að fyrirhuguð hugmyndasamkeppni um Víkurgarð verði til þess að gera hann aðlaðandi og vistlegan stað í hjarta Reykjavíkur, öllum borgarbúum og gestum þeirra til heilla,“ segir í tilkynningunni.

Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns.
Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is