Munu sækja bætur af fullum þunga

Lindarvatn mun fara fram á bætur frá Minjastofnun vegna þeirra …
Lindarvatn mun fara fram á bætur frá Minjastofnun vegna þeirra tafa sem skyndifriðun á hluta Víkurkirkjugarðs olli. mbl.is/Hallur Már

„Það liggur ljóst fyrir að Minjastofnun er bótaskyld vegna skyndifriðunarinnar og það hefur alltaf komið skýrt fram af hálfu Lindarvatns að þær bætur verða sóttar af fullum þunga,“ segir Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns, fyrirtækisins sem stendur að byggingu á Landssímareitnum við hlið Fógetagarðs.

Minjastofnun dró í í gærkvöldi til baka friðlýsingartillögu um stækkun friðlýsta svæðisins í Víkurgarði og fallist hefur verið á sjónarmið Minjastofnunar um verndun Víkurgarðs. Lands­s­ímareit­ur­inn verður ekki friðlýst­ur geri Lind­ar­vatn breyt­ingu á hönn­un bygg­ing­ar sinn­ar.

Jóhannes býst við því að nákvæm bótakrafa liggi fyrir á næstu tveimur til þremur vikum en hann segir það ekki ljóst hversu háar bætur fyrirtækið muni fara fram á. Samkvæmt lögum um menningarminjar skal kröfum um skaðabætur vegna framkvæmdar á ákvæðum laganna sem falla undir rannsóknir, friðlýsingu menningarminja eða verndun og varðveislu fornminja, húsa og mannvirkja beint til Minjastofnunar Íslands.

Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns.
Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns. Ljósmynd/Aðsend

Seinkun á afhendingu og breyting á verklagi og verkáætlun

Skyndifriðunin sem varði í sex vik­ur olli töf­um á fram­kvæmd­um og þar af leiðandi tölu­verðu raski hvað varðar af­hend­ingu bygg­ing­ar­inn­ar.

„Tafirnar valda seinkun á afhendingu hins leigða þar sem búið er að gera leigusamninga um þessar eignir. Þetta hefur auk þess í för með sér ákveðið breytt verklag á vinnustað, það þarf að taka tillit til þessa skyndifriðaða svæðis, þrátt fyrir að þar hafi aldrei verið neinar minjar að finna. Síðan hefur þetta kallað á ákveðna yfirlegu og breytingu á verkáætlun sem hefur í för með sér aukinn hönnunarkostnað.“

Hótelið verði tilbúið haustið 2020

Jóhannes segir að það sé ekki forgangsmál hjá Lindarvatni að sækja bætur vegna tafanna þó að það verði samt sem áður gert. „Við þurfum að gera ákveðnar breytingar til að koma til móts við verndarsjónarmið Minjastofnunar. En að því sögðu teljum við þetta vera lausn sem allir geta sætt sig við og erum auðvitað ánægð með að það sé komin niðurstaða í málið sem leiðir til þess að við getum haldið áformum áfram að mestu óbreyttum.“

Að sögn Jóhannesar er stefnt að því að hótelið á Landssímareitnum verði tilbúið haustið 2020.

mbl.is