Árshátíð ríkislögreglustjóra haldin í Tékklandi

Starfsmenn sjálfir, starfsmannafélag ríkislögreglustjóra og embættið standa straum af kostnaði …
Starfsmenn sjálfir, starfsmannafélag ríkislögreglustjóra og embættið standa straum af kostnaði við ferðina. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn/Ljósmynd/Colorbox/Unsplash/Martin Krchnacek

Árshátíð ríkislögreglustjóra verður haldin í Prag í Tékklandi þetta árið. Ef fer sem stefnir þá mun heildarkostnaður embættisins vera 13,5 milljónir króna.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Helenu Rós Sturludóttur, upplýsingafulltrúa ríkislögreglustjóra, við fyrirspurn mbl.is.

„Ef sá fjöldi sem skráður er í ferðina í dag fer til Prag verður heildarkostnaður embættisins tæpar 13,5 milljónir króna með óvissuþáttum. Kostnaður fyrir maka sem koma með í ferðina er ekki niðurgreiddur,“ segir Helena.

Engin árshátíð fór fram í fyrra

Starfsmenn sjálfir, starfsmannafélag ríkislögreglustjóra og embættið standa straum af kostnaði við ferðina, að því er kemur fram í svari hennar. Þá heldur ríkislögreglustjóri kostnaði við sjálfa árshátíðina í lágmarki en greiðir fyrir ferð, gistingu og kvöldverð. Starfsmenn eru annars á eigin vegum.

„Til stóð að vera með árshátíð í fyrra, 2023, hér innanlands en hætta varð við þau plön vegna stórra verkefna embættisins líkt og leiðtogafundarins. Engin árshátíð fór því fram í fyrra og þess í stað var ákveðið að safna fyrir utanlandsferð þetta árið,“ segir Helena.

Þá tekur Helena fram að árin 2020, 2021 og 2023 hafi ekki verið haldnar árshátíðir. Árið 2022 var þó haldin árshátíð í Stykkishólmi.

Nánari upplýsingar um ferðina verða veittar eftir árshátíðina að sögn Helenu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert