„Væntanlega lengra þing“

Bjarkey Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna.
Bjarkey Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Málþóf Miðflokksmanna vegna þriðja orkupakka var á meðal þess sem rætt var á fundi forseta Alþingis með formönnum þingflokka í morgun. Þetta staðfestu þingflokksformennirnir Birgir Ármannsson í Sjálfstæðisflokki og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir í Vinstri-Grænum í samtali við mbl.is.

„Sú afstaða forseta, og ýmissa þingflokksformanna, að það væri mál að linni, kom fram. Miðflokksmenn virðast telja sig þurfa að koma einhverjum fleiri sjónarmiðum að. Það urðu engar breytingar á stöðu mála. Við gerum bara ráð fyrir því að orkupakkamálin verði tekin fyrir síðar í dag, eins og dagskrá gerir ráð fyrir, og svo sjáum við til,“ segir Birgir um stöðuna í umræðum um þriðja orkupakkann. Spurður hvort þingheimur sé orðinn þreyttur á málþófi Miðflokksmanna svarar Birgir að það megi segja að meirihluti þingmanna telji að umræðan hafi verið tæmd fyrir löngu síðan. „Miðflokksmenn eru auðvitað annarrar skoðunar,“ segir Birgir og bætir við: „Eins og staðan er núna þá þurfa menn bara aðeins að sjá hvernig dagurinn og næstu dagar þróast og þá er hægt að taka afstöðu til framhaldsins.“

Á ekki von á að úr leysist fljótlega

„Forseti ræddi auðvitað stöðuna eins og hún er, og hvernig hún horfir við. Við horfum væntanlega á lengra þing nema það leysist úr mjög fljótlega,“ segir Bjarkey Olsen um fundinn í morgun, en áætluð þinglok eru 5.júní nk. 

Spurð hvort eitthvað útlit sé fyrir að úr stöðunni leysist á næstunni segir Bjarkey að á fundinum hafi það ekki verið rætt til hlítar, en hún eigi allt eins von á því að Miðflokksmenn „haldi áfram uppteknum hætti.“

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert