„Þetta er gjörsamlega ótrúlegt“

Á myndinni má sjá kindina við húsvegg í Bolungarvík á …
Á myndinni má sjá kindina við húsvegg í Bolungarvík á Hornströndum. Svo virðist sem hræ af annarri og minni kind sé við hlið hennar. Ljósmynd/Eiríkur Kristjánsson

„Þetta er alveg gjörsamlega ótrúlegt. Ég bara skil þetta ekki,’’ segir Guðlaugur Agnar Ágústsson, bóndi á Steinstúni í Norðurfirði, en tvær kindur fundust í dag á Hornströndum sem telst líklegast einn afskekktasti staður sem sauðfé hefur fundist á.

Guðlaugur segist enn ekki vita hvaðan kindurnar komi, en þeir Snæbjörn Jónsson og Eiríkur Kristjánsson urðu kindanna varir þegar þeir flugu yfir svæðið í dag. Líklega var um að ræða fullvaxta kind og minna lamb.

„Það veit enn enginn neitt. Flugmaðurinn sem sá hana heldur að það sé ein dauð við húsvegg í Bolungarvík og önnur hlaupandi þarna í kring.“

Steinstún er líkast til nyrsti bærinn með sauðfé og eru yfir 40 km í beinni loftlínu yfir í Bolungarvíkina. Guðlaugur segist eiga bágt með að trúa því að hans fé hafi komist alla leið á Hornstrandir.

Ekki er vitað hvaðan ærin kemur en ljóst er að …
Ekki er vitað hvaðan ærin kemur en ljóst er að hún á mikið ferðalag að baki. Ljósmynd/Eiríkur Kristjánsson

„Við erum búin að vera að reyna að skoða þetta á korti og strandarmegin er næsti bær með sauðkindur hér að Steinstúni í Norðurfirði. Hinum megin í Ísafjarðardjúpi er næsti bær líklega Skjaldfönn. Í báðum tilfellum eru leiðirnar alveg fáránlegar.

„Það væri alveg ótrúlega óraunverulegt ef hún hafði gengið héðan úr Árneshreppi þessi kind.“

Aldrei lent í öðru eins

Guðlaugur segir það líklegt að málið eigi eftir að skýrast betur á næstunni.

„Matvælastofnun tekur sjálfsagt við þessu máli og fer í það að rannsaka það og ná sjálfsagt kindinni. Ég bara get ekki beðið eftir að vita hvaðan þessi kind kemur.

„Mér finnst þetta svo ótrúlegt. Það væri bara líklegast að einhver hafði sleppt þessu niður úr þyrlu,“ segir hann og hlær.

Guðlaugur telur þetta að öllum líkindum vera algjört einsdæmi. Þó sé það ekki jafn fáheyrt að kindur komist af yfir veturinn þótt þær finnist ekki á haustin.

„Þessi vetur var frekar snjóléttur á láglendi. Kind sem kemst niður að sjó ef hún var á fjöllum þegar haustar á alveg að geta haft það af og haft það nokkuð ágætt við sjóinn. Ef kindur sem finnast ekki á fjöllum komast niður að sjó erum við að finna þær einn daginn í bara ágætisstandi.

„Við höfum lent í þessu oft hérna. En aldrei á þessum stað. Þetta er náttúrulega bara algjört rugl. Alveg magnað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert