Hlupu frá blikkbeljum eftir árekstra

Tveir menn, einn ölvaður og annar ökuréttindalaus, reyndu að stinga …
Tveir menn, einn ölvaður og annar ökuréttindalaus, reyndu að stinga laganna verði af á hlaupum eftir að þeir klessukeyrðu bíla sína í borgarumferðinni í dag. mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti tvívegis í dag að hlaupa á eftir ökumönnum sem höfðu ekið á aðra bíla og reynt að flýja af vettvangi á tveimur jafnfljótum. Báðir náðust þeir, annar ofurölvi en hinn ökuréttindalaus.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, þar sem farið er yfir helstu verkefni dagsins. Bæði áttu atvikin sér stað eftir hádegið í dag og var annar ökumannanna tekinn í Garðabæ, en hinn í Hafnarfirði. Sá ölvaði var settur í fangaklefa, en hinn var færður til skýrslutöku og sleppt eftir það.

Af öðrum verkefnum lögreglu má nefna að erlendur karlmaður er grunaður um þjófnað úr vínbúðinni í Kringlunni, en hann framvísað fölsuðum skílríkjum við handtöku. Hann er í fangageymslu á meðan mál hans er rannsakað.

Þá var kona í annarlegu ástandi tilkynnt til lögreglu á öðrum tímanum í dag, en hún hafði verið að ganga á milli húsa og taka í hurðarhúna í Seljahverfi. Hún gaf litlar og ótrúverðugar skýringar á hegðun sinni, samkvæmt lögreglu og var henni ekið að dvalarstað sínum að svo búnu.

Í hádeginu í dag var svo tilkynnt um slys í Grafarholti, en þar hafði heitt te úr bolla hellst yfir eins árs gamlan dreng. Drengurinn hlaut alvarleg brunasár og var fluttur á slysadeild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert