Áfram hlýtt en glittir í haustlægðir

Hlýr loftmassi hefur verið yfir landinu frá því um miðja …
Hlýr loftmassi hefur verið yfir landinu frá því um miðja síðustu viku. Útlit er fyrir ágætis veður fram yfir helgi, en þá fer að glitta í fyrstu almennilegu haustlægðina, að sögn veðurfræðings. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hiti fór hæst í 20 gráður á Bláfeldi í dag og er það nýtt landsdægurmet, óstaðfest þó, að því er fram kemur í færslu Trausta Jónssonar í facebookhópnum Hungurdiskum, þar sem áhugafólk um veður skiptist á upplýsingum um veður og veðurfar. 

Hlýr loftmassi hefur verið yfir landinu frá því um miðja síðustu viku. Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is alls ekki óþekkt að hlýindi á borð við þau sem hafa verið á landinu síðustu daga gleðji landsmenn í september, þó að hitamet hafi ekki fallið síðustu daga. 

Trausti bendir þó á að hiti í Reykjavík í dag fór mest í 18,5 stig og hefur aldrei áður orðið svona hár eftir 11. september. 

Úrkoman minnkaði en hlýindin sátu eftir

„Þetta byrjaði um miðja síðustu viku þegar kom mjög hlýr loftmassi yfir landið en þá var líka mjög rakt og rigndi mikið. Síðan má í mjög grófum dráttum segja að rakinn og úrkoman hafi minnkað en hlýindin sátu eftir án þess að nokkuð annað tæki við. Síðan þá höfum við setið í hlýjum loftstraumi,“ segir Teitur. 

Hiti komst til að mynda upp í 19,1 gráðu á Þingvöllum í dag og segir Teitur að hiti hafi ávallt farið upp í 20 stig á að minnsta kosti einum stað á landinu síðustu daga. 

Útlitið fyrir næstu daga er með ágætum að sögn Teits, en það glittir í haustlægðirnar upp úr miðri næstu viku. 

„Það er bara ágætis veður næstu daga, það er að vísu að halla sér til norðaustanáttar og smám saman færist svalara loft yfir landið. Sunnan heiða verður bjart og sæmilega hlýtt í sólinni en smávægis væta fyrir norðan og austan og svalara þar,“ segir hann. 

Á sunnudag, mánudag og þriðjudag er útlit fyrir hægan vind á landinu og léttskýjað veður býsna víða en svalara en verið hefur, svokölluð hauststilla.  

„Ef  við gægjumst enn lengra gæti verið lægðagangur og farið að hvessa og rigna upp úr miðri næstu viku. Þannig er það allavega eins og spáin lítur út núna,“ segir Teitur og því er enn hægt að halda í vonina að spár breytist og hauslægðirnar fresti komu sinni, að minnsta kosti um sinn.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert