Íslenskukennsla kvenna fær Evrópuverðlaun

Nicole Leigh Mosty og Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir, verkefnastjórar fyrir miðju.
Nicole Leigh Mosty og Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir, verkefnastjórar fyrir miðju. Ljósmynd/Aðsend

Verkefnið Stígum saman í áttina að öflugra samfélagi hefur hlotið Evrópumerkið (e. European Language Label) á Íslandi árið 2019. Verðlaunin eru á vegum Evrópusambandsins, en þeim er ætlað að hvetja til aukinnar tungumálakennslu og samstarfs á milli ólíkra ríkja og er eitt verkefni verðlaunað í hverju þátttökuríki Erasmus+ menntaáætlunar ESB.

Verðlaunaverkefnið að þessu sinni er á vegum þjónustumiðstöðvar Breiðholts, miðar að því að bæta íslenskukunnáttu kvenna af erlendum uppruna á vinnustöðvum og bjóða upp á starfstengt íslenskunámskeið, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Hefur meðan annars verið boðið upp á svokallað íslenskuþorp, sem er nýstárleg kennsluaðferð í íslensku sem öðru máli á vegum Háskóla Íslands. Aðferðin byggir á nýjum rannsóknum á því hvernig tungumál lærast í félagslegum samskiptum og hefur reynst afar vel.

Þá hefur íslenskunámskeið fyrir erlent starfsfólk á leikskólum verið haldið, með það að markmiði að styrkja samskipti við börnin, samstarfsfólk og foreldra, efla frumkvæði, gleði og starfsvitund. Verkefnið þykir hafa skilað tilskildum árangri, og verið sýnt fram á að nemendur töluðu meiri íslensku að námskeiði loknu, fengu meira sjálfsöryggi og voru reiðubúnari til að takast á við meiri ábyrgð á sínum vinnustað.

Verkefnastjórnar þess, Nicole Leigh Mosty og Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir, tóku við Evrópumerkinu í dag í Menntaskólanum í Kópavogi, auk Elísabetar Karlsdóttir, forstöðumanns í Gerðubergi og Önu Aleksic, fulltrúa nemenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert