Leitin enn engan árangur borið

Björgunarsveitarmenn við leit að Rimu um helgina.
Björgunarsveitarmenn við leit að Rimu um helgina. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Leit að Rimu Grunskyté Feliksasdóttur, sem hefur verið saknað síðan kvöldið 20. desember, hófst að nýju klukkan 10 í morgun. Talið er að Rima hafi fallið í sjóinn við Dyrhólaey. 

Orri Örvarsson, formaður björgunarsveitarinnar Víkverja, segir að leitað verði frá Blautukvísl að Skógum. Leitað er á sömu svæðum og áður og reiknar Orri með að leit ljúki á milli klukkan 15 og 16 síðdegis. 

Orri segir aðstæður vera góðar, en alls eru ellefu björgunarsveitarmenn við leitina, 7 frá Víkverja og 4 frá Lífgjöf í Álftaveri. Leitað er á fjórhjóladrifnum ökutækjum og fótgangandi. 

„Það viðrar vel og núna er háfjara. Við erum að reyna að nýta þann tíma.“

Beri leitin í dag ekki árangur hefur verið ráðgert að skipuleggja stærri leit í byrjun janúar, en um helgina tók lögreglan á Suðurlandi í samráði við svæðisstjórn björgunarsveita ákvörðun um að fresta stærri leitaraðgerðum um sinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert