„Eigi ekki að senda börn út í óvissuna“

Muhammed Zohair Faisal.
Muhammed Zohair Faisal. Skjáskot/change.org

„Við teljum að allt sé hægt ef viljinn er fyrir hendi. Við teljum að í landi þar sem búið er að lögfesta Barnasáttmálann eigi að afgreiða mál með hagsmuni barnanna í forgrunni. Það eigi ekki að senda börn út í óvissuna.“ Þetta segir Kristján Guy Burgess, foreldri í Vesturbænum, en dóttir Kristjáns er bekkjarsystir Muhammeds Zohair Faisal, sjö ára drengs sem verður sendur úr landi ásamt fjölskyldu sinni á morgun. 

Þegar þetta er skrifað hafa ríflega 14.000 sett nafn sitt við undirskriftalista á netinu þar sem skorað er á stjórnvöld að hætta við brottvísun Muhammeds og fjölskyldu.

Kristján Guy Burgess.
Kristján Guy Burgess. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þurfi að skoða hagsmuni barnsins betur

„Stjórnvöld þurfa að vita hvað tekur við barninu þegar það er sent úr landi í einhverjar aðstæður sem það hefur aldrei verið í áður. Þar sem foreldrarnir hafa ástæðu til að óttast um líf sitt. Hagsmuni barnsins þarf að skoða miklu, miklu betur,“ segir Kristján og bætir við: „Það eru fordæmi fyrir því að mál hafi verið tekin fyrir vegna hagsmuna barns og við teljum að það eigi að vera hægt í þessu máli.“

Kristján segir frá því að fjölskylda Muhammeds hafi sótt um alþjóðlega vernd við komuna hingað til lands en hafi rétt áður en frestur rann út, eftir að hafa verið hér í átján mánuði, fengið synjun. „Þá vita þau ekkert hvað tekur við. Og þá ber ríkinu að klára málið,“ segir hann og heldur áfram: „Á meðan er barnið í skóla, eignast vini og lifir sínu lífi. Svo bara hringir löggan og segir: Nú þurfið þið að fara.“

„Sniðugur og klár“

Spurður um tengsl sín við Muhammed segir Kristján að drengurinn sé bekkjarbróðir dóttur hans í fyrsta bekk Vesturbæjarskóla. „Strax þegar skólinn byrjaði þá byrjaði maður að heyra sögur af þessum strák, sem væri sniðugur og klár og duglegur. Svo heyrir maður það líka frá starfsfólkinu. Núna þegar þetta mál kemur upp, og foreldrar byrja að tala sig saman, þá hafa allir heyrt sömu sögurnar. Við erum því að velta því fyrir okkur hvað er hægt að gera svo þau fái að vera áfram með okkur.“

Boðað hefur verið til veislu í Vesturbæjarskóla klukkan 14.00 í dag þar sem nemendur, foreldrar og kennarar munu kveðja fjölskylduna, fari svo að brottvísuninni fáist ekki seinkað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert