409 smitaðir af kórónuveirunni

Upplýsingafundur 19.3 - Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma Möller …
Upplýsingafundur 19.3 - Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma Möller landlæknir og Ævar Pálmi Pálma­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn Ljósmynd/Júlíus Sigurjónsson

Alls eru 409 smitaðir af kórónuveirunni á Íslandi samkvæmt nýjum tölum á vefnum covid.is. Þetta er fjölgun um 79 frá því fyrir sólarhring og hefur því smituðum fjölgað um 159 síðustu tvo daga. 

Alls eru 4.166 í sóttkví en 577 hafa lokið sóttkví. Tekin hafa verið 9.189 sýni og sjö eru á sjúkrahúsi. Upplýsingar um fjölda smitaðra eru birtar á vefnum covid.is klukkan 11 á hverjum degi. Þá voru 330 smitaðir en síðar í gær var bætt við þá tölu og hún hækkuð í 334. 

Þar kemur fram að alls eru 349 smitaðir á höfuðborgarsvæðinu og 2.934 eru í sóttkví. Á Suðurlandi eru 30 smitaðir og 544 í sóttkví. Á Norðurlandi vestra eru 2 smitaðir og 237 í sóttkví. Á Norðurlandi eystra eru 2 smit og 194 í sóttkví. Á Suðurnesjum eru 19 smitaðir og 141 í sóttkví. Á Austurlandi er enginn smitaður en 22 í sóttkví. Á Vestfjörðum er enginn smitaður en 21 í sóttkví. Enginn er heldur smitaður á Vesturlandi en þar eru 50 í sóttkví. Óstaðsettir eru 7 smitaðir og 20 í sóttkví og fjórir útlendingar eru í sóttkví.

Rúmlega 52% smitaðra eru karlar og rúmlega 47% eru konur. Enn eru smit erlendis stærsti hlutinn eða 36% en óþekkt smit sækja fast þar á en þau eru 36%, það er uppruni smits eru óþekkt. Innanlandssmitun er tæp 28%.

Yfir 60% smitaðra eru á aldrinum 30-59 ára eða 254 talsins. Fyrsta smitið hjá einstaklingi yfir áttrætt hefur verið staðfest samkvæmt covid.is. Þrjú börn yngri en 9 ára eru með kórónuveiruna og 9 á áttræðisaldri. 

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra boðar til upplýsingafundar fyrir blaðamenn klukkan 14:00 í dag.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma D. Möller landlæknir munu fara yfir stöðu mála með tilliti til COVID-19, staðfestra smita hér á landi, aðgerða stjórnvalda o.fl.

Á fundinum mun einnig Joanna Marcinkowska, sérfræðingur í málefnum innflytjenda hjá Reykjavíkurborg, ræða mikilvægi upplýsingamiðlunar til innflytjenda.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert