Brotthvarfið kom á óvart

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsamband Íslands.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsamband Íslands.

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands segir að brotthvarf þriggja úr miðstjórn ASÍ hafi komið sér óvart. „Maður hefði viljað finna leiðir til að vinna málin áfram með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi til að vinna úr þeirri erfiðu stöðu sem er uppi hjá okkur tímabundið í samfélaginu,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ og 2. varaforseti ASÍ.

Vilhjálmur Birgisson, Ragnar Þór Ingólfsson og Harpa Sævarsdóttir hafa öll sagt sig frá störfum innan sambandsins í kjölfar ágreinings um viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum. Vilhjálmur og Ragnar Þór voru á meðal þeirra sem vildu að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð yrði tímabundið skert til að aðstoða fyrirtæki en tillögunni var hafnað.

Vil­hjálm­ur Birg­is­son, Drífa Snæ­dal, formaður ASÍ, og Kristján Þórður Snæ­bjarn­ar­son …
Vil­hjálm­ur Birg­is­son, Drífa Snæ­dal, formaður ASÍ, og Kristján Þórður Snæ­bjarn­ar­son er þau voru kjör­in í þrjú æðstu embætti ASÍ á þingi sambandsins árið 2018. mbl.is/Árni Sæberg

Vill ekki einhliða eftirgöf á mótframlagi

Kristján Þórður kveðst ekki vera fylgjandi einhliða eftirgjöf á mótframlagi og segir réttast að leita heildstæðra leiða til að tryggja stöðu fyrirtækja og heimila. Hann segist ekki sannfærður um að svona lækkun myndi tryggja stöðu fyrirtækjanna. „Ég held að þetta hlutaatvinnuleysi sem er búið að bjóða upp á sé að grípa einna mest í þá stöðu sem er uppi. Þetta er gríðarlega erfið staða sem er nauðsynlegt að bregðast við. Ég veit ekki hvaða fleiri viðbragða er þörf en það er synd að þetta skuli raungerast í innbyrðisátökum,“ segir hann og bætir við að mikilvægt sé að tala saman og leita leiða til að bæta stöðuna til að tryggja að við komumst saman í gegnum skaflinn. Á hann þar við atvinnurekendur, launafólk og ríki.

Heilbrigðisstarfsmaður í hlífðarfötum.
Heilbrigðisstarfsmaður í hlífðarfötum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hefur heyrt af uppsögnum 

Spurður út í stöðuna hjá félagsmönnum innan Rafiðnaðarsambandsins segist Kristján hafa heyrt af uppsögnum innan þeirra raða eins og í öðrum starfsgreinum. Töluvert er einnig verið að nýta hlutaatvinnuleysisbæturnar.

Varðandi verkefnið Vinnum saman, sem snýst um að allur virðisaukaskattur af vinnu við endurbætur verður endurgreiddur líkt og eftir efnahagshrunið, segir hann að það eigi eftir að skipta verulegu máli þegar allt fer aftur á flug. „Það verður mjög mikilvægt að fólk fari í framkvæmdir og nýti sér þetta úrræði. Þetta verður verulegur sparnaður fyrir fólk,“ greinir hann frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert