Harmar úrsagnir úr miðstjórn ASÍ

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/Árni Sæberg

Sterk verkalýðshreyfing er gríðarlega mikilvæg um þessar mundir eins og alla jafna á krísutímum. Ég harma úrsagnir úr miðstjórn ASÍ enda er samstaða hreyfinga launafólks ein af grunnforsendum þess að staðinn sé vörður um kjör almennings.

Þetta skrifar Drífa Snædal, forseti ASÍ, á Facebook-síðu sína. Mikil ólga er innan ASÍ og hafa verkalýðsleiðtogarnir Vilhjálmur Birgisson og Ragnar Þór Ingólfsson sagt sig frá störfum innan sambandsins í kjölfar ágreinings um viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum. Harpa Sæv­ars­dótt­ir, vara­formaður VR, sem átti einnig sæti í miðstjórn ASÍ, gerði slíkt hið sama í morg­un.

Vilhjálmur og Ragnar Þór voru meðal þeirra sem vildu að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð yrði tímabundið skert, til að aðstoða fyrirtæki en þeirri tillögu var hafnað.

„Þær tillögur sem nú er deilt um og ganga út á skerðingar á réttindum launafólks úr lífeyrissjóðum voru til umræðu þar en um þær voru afar skiptar skoðanir. Það er varasamt að skerða réttindi launafólks úr lífeyrissjóðum til allrar framtíðar. Það má vel gagnrýna lífeyrissjóðakerfið en ég mun standa vörð um þann rétt sem vinnandi fólk hefur áunnið sér eins og nokkur kostur er, enda er lífeyririnn sennilega með mikilvægari réttindum sem fólk á. Það er freistandi að fara sífellt inn í lífeyrisréttindin til að leita lausna við tímabundnum vanda en þeim mun mikilvægara að hreyfingin standi í lappirnar,“ skrifar Drífa á Facebook.

Hún segir að ef eigi að krukka í réttindum vinnandi fólks þá þurfi það að gerast í stærra samhengi, í samráði og samtali við opinbera markaðinn, atvinnurekendur og stjórnvöld.

„Ef farið er inn í kjarasamninga verða hagsmunir launafólks að vera tryggðir með öðrum hætti og þeim bætt upp skerðingin. Þetta er mitt viðhorf og það hefur ekki breyst síðustu vikur,“ segir Drífa og bætir við að ASÍ muni halda áfram að vinna í stórum verkefnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina