Hluthafar bíða eftir ríkinu

Flugferðir Icelandair eru innan við 10% af flugáætlun félagsins.
Flugferðir Icelandair eru innan við 10% af flugáætlun félagsins. mbl.is

Ekki er gott að segja til um hversu auðvelt verður fyrir Icelandair að auka hlutafé sitt með útboði. Þetta segir Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans. Greint var frá því í dag að félagið stefndi á almennt hlutafjárútboð, en félagið mun þurfa að sækja sér á bilinu 150-200 milljónir dala, 20-30 milljarða króna.

„Upphæðin sem slík er háð einhverri óvissu. Við erum bara að reyna að giska,“ segir Sveinn og bendir á að félagið þurfi að svara fyrir þessar tölur.

Aðspurður segir hann að fjárfestar í félaginu séu að einhverju leyti upp við vegg, en þeir hafi þó alltaf möguleikann á að vera ekki með í útboðinu. „Þeir eru væntanlega að velta þessum hagsmunum fyrir sér núna,“ segir Sveinn.

Stjórnvöld hafa ekki viljað lofa neinu um sérstakan stuðning við Icelandair umfram önnur fyrirtæki, en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur sagt að ekki sé útilokað að ríkið aðstoði félagið.

Spurður út í mögulega aðkomu ríkisins, segist Sveinn telja líklegt að það stígi á einhvern hátt inn í. „Mig grunar að ríkið sé tilbúið að stíga inn í þegar hluthafar gera það, en hluthafar vilja væntanlega einnig fá skýr svör um mögulega aðkomu ríkisins,“ segir hann. Því sé ljóst að miklar viðræður fari nú fram bakvið tjöldin. „Hluthafar vilja líka sjá samninga við stéttarfélögin og lánveitendur og jafnvel að þeir færi eitthvað af sínum lánum yfir í hlutafé. Allar leiðir hljóta að vera í skoðun.“

Það sjónarmið hefur heyrst að ef ríkið á að styrkja Icelandair sérstaklega eigi það um leið að eignast hlutafé í félaginu. Sveinn segist ekki telja þá hugmynd vera ofarlega á blaði, en það sé þó pólitísk spurning. „Erlendis hafa verið útfærðar hugmyndir um lán frá ríki til flugfélaga brúarlán og sögulega séð hafa mörg flugfélög endað í ríkiseigu, svo sem á Norðurlöndum,“ segir hann. 

Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans.
Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert